Læknar hafna algjörlega fullyrðingu velferðarráðherra í Kastljósinu í kvöld að laun sérfræðilækna á Landspítalanum séu á bilinu 1,8 - 2,2 milljónir. Hið rétta sé að laun sérfræðilæknis með mikla starfsreynslu eru 612 þúsund krónur fyrir fullt starf.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hélt því fram í Kastljósinu í kvöld, þar sem launahækkun Björns Zoëga var til umræðu, að hækkunin miðað við læknastörf forstjórans væri sambærileg við laun sérfræðilækna á Landspítalanum. Þessi ummæli vöktu hörð viðbrögð lækna sem funduðu í kvöld. Steinn Jónsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur segir fullyrðingu ráðherra ekki rétta. Einstakir læknar með mikla vaktabyrði kunna að ná heildartekjum í námunda við 1,5 milljónir á mánuði.
Rof á trausti
Talsverður hiti var á fundi lækna í kvöld, sem fjallaði um kjör og stöðuna í heilbrigðiskerfinu, en tilefnið er launahækkun forstjórans sem dregin var til baka í gær. Fundargestir lýstu mikilli óánægju og áhyggjum með ástandið á sjúkrastofnunum. Niðurstaða fundarins var ályktun þar sem segir að rof hafi orðið á trausti, trúnaði og heilindum milli heilbrigðisstarfsmanna og yfirstjórnar heilbrigðismála.
Fundurinn lýsti jafnframt áhyggjum af versnandi ástandi á Landspítalanum og í heilbrigðisþjónustunni í landinu. „Við vaxandi álag, erfiðar vinnuaðstæður og vanmat á störfum fagfólks er auðvelt að skilja hvers vegna straumur heilbrigðisstarfsmanna hefur verið úr landi.
„Rof hefur orðið á trausti, trúnaði og heilindum milli heilbrigðisstarfsmanna og yfirstjórnar heilbrigðismála. Niðurskurður á fjárframlögum til heilbrigðismála er kominn út yfir þolmörk. Ábyrgð heilbrigðisyfirvalda er mikil. Læknasamtökin hvetja því yfirvöld til tafarlausra úrbóta áður en óbætanlegur skaði hlýst af.“