„Það er fínasta veður í dag. Við erum að smala og verðum sjálfsagt fram á kvöld,“ segir Böðvar Baldursson, leitarstjóri á Þeistareykjum, en bændur hófu leit þar snemma í morgun. Þeir fá aðstoð við smölun frá björgunarsveitum í S-Þingeyjarsýslu og af Eyjafjarðarsvæðinu.
Vont verður hefur verið á Norðausturlandi framan af vikunni og því hafa bændur beðið með að leggja af stað í leitir á heiðum. Nú er hins vegar komið mjög gott verður.
Böðvar segist ekki hafa yfirlit yfir hvað er búið að finna margt fé í dag, en það sé væntanlega nokkur hundruð. Hann segist ekki vita til þess að leitarmenn hafi grafið kindur úr fönn í dag. Menn hafi verið beðnir um að hafa augun hjá sér, en aðaláherslan sé lögð á að ná því fé sem er laust á svæðinu. Böðvar segir að leitarmenn komist ekki yfir allt svæðið í dag. Hann reiknar með að leit verði haldið áfram á morgun. Reynt verði að nota góða veðrið.
„Við erum að tína féð saman á vélsleðum á snjóasvæðunum og setjum það sem við finnum í kerrur,“ segir Böðvar.
Það fé sem finnst er flutt niður að leitarmannaskálanum á Þeistareykjum, en þaðan er féð flutt á vögnum niður í byggð.