Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að stóryrði og svikabrigsl forystumanna aðila vinnumarkaðarins í garð stjórnvalda vegna kjarasamninga væru orðin nokkuð hvimleið.
Var hún þar að svara fyrirspurn frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem gerði að umtalsefni gagnrýni forystumanna aðila vinnumarkaðarins á ríkisstjórnina um að ekki hefði verið staðið við gerða kjarasamninga.
Sagði hún að ríkisstjórnin hefði gert mjög mikið til þess að tryggja að kjarasamningar gengju eftir. Hins vegar virtist sem um væri að ólíka túlkun aðila á stöðu mála. Hins vegar væri ekki hægt að kenna ríkisstjórninni til að mynda um tafir á fjárfestingum vegna alþjóðlegu efnahagskreppunnar.
Þá sagði hún að skoða þyrfti alvarlega hvort ríkisstjórnin ætti að koma eins mikið að gerð kjarasamninga og verið hefði í ljósi þeirra ásakana sem hún hefði þurft að sitja undir um svikabrigsl í þeim efnum.