Hæsta hlutfall sérkennslu var á Vesturlandi

Íslensk grunnskólabörn að störfum. Afar misjafnt er eftir landshlutum hversu …
Íslensk grunnskólabörn að störfum. Afar misjafnt er eftir landshlutum hversu hátt hlutfall grunnskólabarna er í sérkennslu. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hæsta hlutfall þeirra grunnskólanemenda sem þurfa á sérkennslu að halda er á Vesturlandi. Þar fengu 35,4% nemenda sérkennslu á síðasta skólaári. Lægsta hlutfallið er á Akureyri, þar sem 21,2% nemenda í grunnskólum bæjarins voru í sérkennslu. Landsmeðaltal er 27,5%.

Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands. Þar kemur fram fjöldi og hlutfall þeirra grunnskólanemenda sem eru í sérkennslu. 

Suðurnes eru það landsvæði þar sem næsthæsta hlutfallið er. Þar fá 33,5% barna sérkennslu og þar á eftir kemur Garðabær með 30,7%.

Af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu fá fæstir grunnskólanemendur sérkennslu í  Hafnarfirði, eða 24%. Þar er jafnframt næstlægsta hlutfall sérkennslunemenda, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

11.656 voru í sérkennslu í fyrra

Í gær birti Hagstofan tölur um fjölda nemenda í sérkennslu á skólaárinu 2011-2012, en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Landsmeðaltal er 27,5%, en til samanburðar má nefna að árið 1995 fengu 20% grunnskólanemenda sérkennslu.

Alls fengu 11.656 grunnskólanemendur sérkennslu af einhverju tagi á þessu tiltekna skólaári og þar eru ekki taldir með þeir sem eru í sérskólum. Nemendur í sérdeildum eru inni í þessari tölu, en þeir voru 430 talsins.

Hlutfall þeirra grunnskólanemenda sem fá sérkennslu hér á landi er talsvert hærra en víða annars staðar, til dæmis fengu 11% grunnskólanemenda í Danmörku sérkennslu á síðasta ári og 8,6% í Noregi. Inni í þessum tölum frá nágrannalöndunum eru börn  í sérskólum sem þjóna nemendum með ýmsar raskanir og fatlanir.

Frétt mbl.is: 27,5% íslenskra grunnskólabarna í sérkennslu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert