Forystumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands standa við þá fullyrðingu sína að ríkisstjórnin hafi svikið veigamikil fyrirheit við gerð kjarasamninga.
Með því brugðust þeir við þeim ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á Alþingi í gær, að ásakanirnar væru rangar. Jóhanna lét ekki þar við sitja heldur gaf til kynna að ríkisstjórnin myndi íhuga hvort hún legði aftur fram svo ítarlegt innlegg við gerð kjarasaminga, sem hún væri síðan eilíflega sökuð um að svíkja. Þá sagði Jóhanna að erfið ytri skilyrði væru ekki á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.
Í umfjöllun um þetta þrætumál í Morgunblaðinu í dag segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, aðila vinnumarkaðarins hafa leitað til stjórnvalda um þátttöku í kjarasamningum m.a. vegna þess að þau skorti skýra stefnu.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir ríkisstjórnina hafa lagt fram mörg áform um framkvæmdir til að stuðla að atvinnusköpun sem ekkert hafi orðið úr.