Hulda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri háskólasjúkrahússins í Akershus í Noregi, hefur beðið þá sjúklinga sem hlutu skaða af dvöl sinni á spítalanum árið 2011, og aðstandendur þeirra, afsökunar.
Afsökunarbeiðnin kemur á hæla skýrslu sem gefin var út í dag en í henni kemur m.a. fram að léleg mönnun á spítalanum hafi stefnt sjúklingum í hættu á fyrstu mánuðum ársins 2011.
„Ég vil biðja aðstandendur og þá sjúklinga sem urðu fyrir skaða á sjúkrahúsinu árið 2011 afsökunar. Tíðni slysa á sjúklingum við Ahus er sambærileg og á öðrum sjúkrahúsum í Noregi en við getum alltaf bætt okkur. Það þýðir þjálfun, þjálfun og aftur þjálfun. Við verðum að setja til hliðar bæði tíma og fjármuni til að æfa viðbrögð í neyðaraðstæðum, eins og t.d. er gert í olíu- og flugiðnaðinum,“ sagði Hulda í samtali við Aftenposten.
Sjúklingum spítalans hefur fjölgað mikið en starfsfólkinu ekki að sama skapi. Höfðu læknar og hjúkrunarstarfsfólk ítrekað kvartað yfir manneklu en heilbrigðisráðherrann, Anne-Grete Strøm-Erichsen, sagði ástandið á Ahus hins vegar í góðu lagi.
Ráðherrann lætur af embætti í dag, sama dag og skýrslan kemur út, en mun taka við embætti varnarmálaráðherra. Jonas Gahr Støre verður nýr heilbrigðisráðherra.
Í samtalinu við Aftenposten sagðist Hulda fagna því að rannsóknin á starfsemi spítalans hefði ekki leitt í ljós orsakasamhengi milli manneklunnar og dauðsfalla á spítalanum en lögreglunni í umdæminu hafa borist þrettán tilkynningar um óútskýrð dauðsföll á spítalanum síðastliðna 18 mánuði.