Er ríkisábyrgð á innistæðutryggingakerfi Evrópu eða ekki? Eftir málflutning fyrir EFTA-dómstólnum í Lúxemborg í Icesave-málinu er ljóst að enginn treystir sér til að segja það fyrir víst.
Fráleitt er að ætla að hin margumrædda tilskipun 94/19/EC taki af tvímæli um það og nú verða menn að bíða næstu tvo til þrjá mánuði eftir að niðurstaða dómsins fáist. Niðurstaða sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í apríl síðastliðnum að ,,yrði þó aldrei meira en álitsgerð.“
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að það væru ýkjur að segja að Evrópa bíði í ofvæni en sjálfsagt yrði mörgum embættismönnum létt ef dómurinn styddi við tilskipunina og breytir þá engu sú vinna sem nú þegar er hafin við að endurbæta galla hennar innan Evrópusambandsins.
Í því ljósi kann það að virka sem heldur fánýtt að vera nú að rétta yfir Íslendingum vegna viðbragða við bankahruni, sem var fordæmalaust innan lands sem utan. Á sínum tíma töldu margir að það myndi þjóna stöðu Íslendinga best að fara dómstólaleið frekar en að sitja undir hörðum samningum. Aðrir sögðu að slíkt myndi ekki gagnast, sá tími sem það tæki myndi kyrkja efnahagslíf landsmanna. En nú þegar málið er loksins komið í dóm þá vekur furðu áhugaleysi innan- sem utanlands.