Forval vegna Norðfjarðarganga

Frá Oddsskarði.
Frá Oddsskarði.

Í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar er auglýst forval vegna Norðfjarðarganga. Vinna við göngin á að hefjast haustið 2013 og taka 3-4 ár.

Fjárveitingar til verksins eru samtals 10,5 milljarðar króna á fjögurra ára tímabili, frá 2013 með meginþungann 2014-2016.

Núverandi Norðfjarðarvegur, á kaflanum frá Eskifirði að Norðfirði, er 26,1 km langur og liggur frá Eskifirði upp á Oddsskarð, um jarðgöngin í Oddsskarði og að Neskaupstað. Á köflum uppfyllir vegurinn ekki nútímakröfur um umferðaröryggi og akstursþægindi. Hann er brattur, með kröppum beygjum og takmarkaðri sjónlengd. Göngin um Oddsskarð voru grafin á árunum 1972-1977. Þau eru 640 m löng, einbreið með 2 útskotum til mætinga. Þá er blindhæð inni í göngunum. Göngin liggja í 626 m hæð y.s. og því erfið í vetrarfærð en einnig er þokusælt árið um kring.

Markmið framkvæmdarinnar er að styrkja byggðarlög á Austurlandi með bættu vegasambandi á milli þéttbýlisstaða. Ennfremur að tryggja greiðar samgöngur og auka umferðaröryggi á svæðinu. Nýr vegur verður með bundnu slitlagi og utan jarðganga verður hann uppbyggður með tilliti til snjóa. Hönnunarhraði vegarins verður miðaður við 70 km/klst. hámarkshraða í jarðgöngum en utan jarðganga verður miðað við 90 km/klst. hámarkshraða.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert