Guðlaugur Friðþórsson, bæjarfulltrúi V-listans í Vestmannaeyjum, hefur ákveðið að hætta í bæjarstjórn.
Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í gær las Páll Scheving Ingvarsson erindi frá Guðlaugi Friðþórssyni þar sem fram kom að Guðlaugur hyggst láta af störfum sem bæjarfulltrúi V-listans. Sigurlaug Björk Böðvarsdóttir kemur inn í bæjarstjórn í hans stað og Kristín Jóhannsdóttir sem varamaður, að því er segir í frétt á vefnum Eyjafréttir.
Þann 11. mars árið 1984 synti Guðlaugur í land, um fimm kílómetra, þegar vélbátnum Hellisey hvolfdi og hann sökk austur af Heimaey. Eftir að í land kom varð Guðlaugur að ganga berfættur til byggða yfir hraun. Fjórir fórust með Hellisey en sagan er sögð í nýrri kvikmynd Baltasars Kormáks, Djúpinu.