Óskaríki Breiviks líkast Íran

Øystein Sørensen, sagnfræðiprófessor.
Øystein Sørensen, sagnfræðiprófessor. mbl.is/Eggert

Nærtækast er að flokka norska fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik sem einhvers konar nýfasista en sá hugsunarháttur sem hann aðhyllist samkvæmt 1.500 blaðsíðna stefnuskrá sinni og það samfélag sem hann vill skapa á sér hins vegar helst hliðstæðu í því fyrirkomulagi sem til staðar er í Íran.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í erindi sem norski sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen flutti á fundi á vegum Varðbergs og Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt (RNH) sem fram fór í dag. Hann gaf meðal annars út bókina „Drømmen om de fullkomne samfunn“ (Draumurinn um hið fullkomna samfélag) árið 2010 þar sem hann fjallar um alræðisstefnur eins og fasisma, nasisma, kommúnisma og íslamisma.

Sørensen lagði þó áherslu á að seint væri hægt að segja að Breivik væri mikill hugmyndafræðilegur hugsuður sem sæist ekki síst á stefnuskrá hans sem hann setti á netið áður en hann framdi fjöldamorðin í Osló og á Útey 22. júlí á síðasta ári þar sem vaðið væri úr einu í annað. Hann sagði þó ástæðu til að fara ofan í saumana á hugmyndum hans vegna þeirra afleiðinga sem þær gætu haft en ljóst væri að fjölmargir öfgamenn um allan heim myndu telja hann hetju og taka mark á honum.

Snúast um hið fullkomna samfélag

Sørensen sagði að allar hreyfingar sem gengu út á alræði, hvort sem þær aðhylltust nasisma, fasisma, kommúnisma - eða íslamisma, snerust um það að fundin hefði verið uppskriftin að hinu fullkomna samfélagi og hinum fullkomna manni. Þær höfnuðu núverandi samfélögum sem gengju út á lýðræði og frjálslyndi og teldu þau dauðadæmd. Slíkar hreyfingar höfnuðu því ennfremur að hægt væri að gera umbætur á núverandi samfélögum, vildu ofbeldisfulla byltingu til þess að umbylta þeim og teldu sig hafa fundið hina einu sönnu lausn á öllu sem varðaði samfélögin.

Þá vildu þær stjórna öllu á öllum sviðum mannlegs samfélags og setja reglur um allt. Þær teldu ennfremur að flest venjulegt fólk áttaði sig ekki á raunverulegu samhengi hlutanna og því þyrfti að veita því leiðsögn. Þá teldu þær markmið sín svo mikilvæg og rétt að beita mætti hvaða aðferðum sem væri til þess að ná þeim. Siðferði skipti ekki máli í því sambandi né mannslíf sama hversu mörg þau væru. Þeim sem stæðu í vegi fyrir markmiðinu yrð að víkja úr vegi og jafnvel eyða. Þær vildu leika Guð.

Kemur heim við hugmyndaheim Breivik

Sørensen sagði að þetta kæmi allt heim og saman við stefnuskrá og annan málflutning Breivik. Hann teldi þannig til að mynda Vestur-Evrópu dauðadæmda einkum vegna fjölda múslima og siðferðislegrar hnignunar. Hann væri hins vegar með uppskriftina að hinu fullkomna samfélagi og væri heimilt að gera það sem þyrfti til þess að skapa það. Hins vegar talaði hann illa bæði um nýnasista og nasista í stefnuskránni og jákvætt um gyðinga. Í fyrirspurnum eftir erindið tók Sørensen hins vegar undir að hugsanlega skýrðist jákvæð afstaða Breivik til gyðinga af því að hann teldi múslima sameiginlegan óvin.

Þá kæmi hugmyndaheimur Breivik ekki heldur heim og saman við hefðbundna skilgreiningu á þjóðernishyggju. Hann legði ekki sérstaka áherslu á Noreg eða norska menningu heldur Evrópu og evrópska menningu sem standa þyrfti vörð um. Þannig vildi hann stofna nýtt evrópskt sambandsríki með eina menningu án áhrifa frá múslimum, marxistum og öfgafrjálslyndum.

Ekki svo langt yfir í helstu óvinina

Sørensen sagði ekki auðvelt að að staðsetja Breivik hugmyndafræðilega en helst kæmi þar til greina nýfasismi eins og áður segir. Helst væri að finna samsvörun við grunnhugmyndir hans um hið fullkomna ríki í Íran. Þótt forsendurnar væru aðrar væri grunnhugsunin sú sama í svonefndum íslamisma. Það væri því þannig séð ekki svo langt á milli hans og helstu óvina hans að hans mati. Með hliðstæðum hætti og það hefði á ýmsan hátt ekki verið langt á milli Hitlers og Stalíns á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert