Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sakar Eirík Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðing og fulltrúa í stjórnlagaráði, um að herma loforð upp á löngu látna menn án haldbærra raka þegar hann segi að íslensku þjóðinni hafi verið lofað við lýðveldisstofnunina að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar færi fram. Þetta kemur fram á heimasíðu Björns.
„Hver lofaði þessu? Hvernig væri að stjórnlagaráðsliðinn skýrði það? Eiríkur Bergmann hermir loforð upp á látna menn án þess að færa nokkur haldbær rök fyrir fullyrðingum sínum. Hver hét því að skipt yrði um stjórnarskrá á Íslandi með heildarendurskoðun stjórnarskrár sem 95% þjóðarinnar samþykkti í atkvæðagreiðslu 1944?“ spyr Björn og vísar til ummæla Eiríks í viðtali við Ríkisútvarpið í gær.
Þá segir Björn að sé annar málflutningur stjórnlagaráðsmanna reistur á hliðstæðum rangfærslum og felist í þessum orðum Eiríks sé „full ástæða til að hvetja fólk til að fella tillögu stjórnlagaráðs. Stjórnlagaráðsliðar veðja greinilega á að enginn rýni í orð þeirra,“ segir Björn og bætir við að stjórnlagaráð skipi í raun ekki annan sess en hver önnur nefnd á vegum Alþingis eða ríkisstjórnarinnar.
„Að fordæmi fjölmargra slíkra nefnda ættu þeir sem sátu í þessari að halda sér á mottunni og leyfa öðrum að dæma um álitið,“ segir Björn ennfremur.