Þegar upp er staðið var veðrinu sem gekk yfir landið 9.-11. september spáð nokkuð vel að því er fram kemur í samantekt Kristínar Hermannsdóttur, veðurfræðings Veðurstofunnar. Hún segir að starfsmenn Veðurstofunar þurfi nú að skoða hvað hefði mátt fara betur, bæði í spám og upplýsingagjöf.
Kristín skrifar að þetta áhlaup hafi verið í kortunum í tæpa viku og sagt eins nákvæmlega frá því og hægt var. Ekki hafi verið send út sérstök fréttatilkynning því fjölmiðlar (Ríkisútvarpið og mbl.is) voru búnir að birta fréttir um væntanlegt veður á laugardagskvöldi og eins voru nokkrar fréttir um væntanlegt veður í mörgum fjölmiðlum á sunnudag. Þó var yfirleitt rætt meira um vindinn í umfjöllun fjölmiðla heldur en úrkomuna.
„Það sem kom sumum veðurfræðingum helst á óvart í þessu veðri var að hitinn varð einni til tveimur gráðum lægri en allflestar spár gerðu ráð fyrir, þannig að sú úrkoma sem féll var meira slydda og snjókoma heldur en rigning og slydda. Eins var spáð talsverðri úrkomu á Norðausturlandi, en þar varð úrkoman umtalsvert meiri en spár gerðu ráð fyrir. Hvað vindinn varðar, var honum mjög vel spáð, en þó mældist meiri meðalvindur en 23 m/s á nokkrum stöðvum, eitthvað sem ekki er óalgengt, en vindhviður voru mjög áþekkar því sem spáð var,“ skrifar Kristín.
„Fyrsta haustlægðin var að þessu sinni óvanalega djúp og köld. Í slíkum tilvikum er mikilvægara en venjulega að veðurupplýsingar komist til skila, þar sem mikilla breytinga á veðri er að vænta,“ segir í samantekt Kristínar.