Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu telja að sameina skuli sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins í eitt. Stjórnsýsluleg einföldun sem þessi myndi útrýma þeirri ónauðsynlegu skriffinnsku og endalausa samningaharki sem er viðloðandi samstarf bæjarfélaga og borgar.
Starfsemi höfuðborgarsvæðisins ætti ekki að taka mið af ímynduðum bæjarmörkum heldur dreifast um sameinað höfuðborgarsvæði eftir þörfum, svo að allir íbúar svæðisins njóti jafnra réttinda og hafi sömu skyldur.´
Í greinargerð með ályktuninni segir m.a. að sú þjónusta sem íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa aðgengi að sé mismunandi eftir búsetu. „Það hlýtur að teljast óeðlilegt að réttindi og skyldur séu svo ólíkar fólks á milli á svona litlu svæði. Það ýtir undir óréttmæta stéttskiptingu í skjóli úreltra ímyndaðra bæjarmarka að bæjarfélög geti komist upp með að takmarka sín umsvif, á þeim forsendum að íbúar þess sæki þessa starfsemi í nærliggjandi bæjarfélög. Aðilar sem hafa mikil fjárráð geta safnast á slík svæði því útsvar er lægra, og samsvarar ekki þeirri starfsemi sem þeir nýta sér frá öðrum bæjarfélögum. Gætt hefur mikillar tregðu meðal stjórnvalda ákveðinna sveitarfélaga til að endurskoða stjórnsýslulegt skipulag höfuðborgarsvæðisins. Velta má vöngum yfir því hvort sú afstaða ráðist af hagsmunum íbúa höfuðborgarsvæðisins í heild eða hagsmunum þeirra sem hafa völd og hagnast af núverandi skipulagi,“ segir m.a. í greinargerðinni.