Ísland inn úr kuldanum

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, var á meðal viðmælenda BBC.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, var á meðal viðmælenda BBC. mbl.is/Ómar Óskarsson

Breska ríkisútvarpið fjallaði í dag um endurreisn íslensks efnahagslífs og var umfjölluninni útvarpað á BBC World Service. Ræddi Peter Day, fréttamaður BBC, m.a. við Má Guðmundsson seðlabankastjóra, Gylfa Magnússon, fyrrv. ráðherra, og Agnesi Bragadóttur, viðskiptafréttastjóra Morgunblaðsins. Þá er einnig rætt við Höskuld H. Ólafsson, bankastjóra Arion-banka, og Andra Snæ Magnason rithöfund ásamt fleirum.

Í umfjölluninni er uppgangur íslensku bankanna á árunum fyrir 2008 rifjaður upp og talað um hvernig og hvort Ísland sé á leiðinni út úr kreppunni. Segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri meðal annars að efnahagur landsins hafi verið að rétta úr kútnum síðan á seinni helmingi ársins 2010. Hagvöxtur hafi verið um 3% í fyrra og 4,5% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þá hafi atvinnuleysi farið minnkandi. Enn séu þó ýmsar áskoranir sem þurfi að takast á við og nefnir Már þar helst gjaldeyrishöftin. Spurður um skuldavandann segir Már að enn sé um vanda að ræða, en að þó hafi tekist að minnka skuldir einkageirans sem nemi tveggja ára þjóðarframleiðslu. 

Agnes Bragadóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, segir hins vegar að Íslendingar eigi enn langt í land áður en hægt sé að segja að landið sé fordæmi fyrir önnur ríki í kreppu. Það sé gæfa Íslands að hafa staðið utan Evrópusambandsins og að hafa haft eigin gjaldmiðil í kreppunni. Atvinnuleysistölur hafi lækkað en þær taki ekki með í reikninginn þann fjölda sem hafi flust úr landi. Peter Day ferðast einnig til Vestmannaeyja með Herjólfi og talar um hvernig eyjarnar hafi þrifist í kreppunni og ræðir við m.a. við Sigurgeir Kristgeirsson um sjávarútveginn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert