„Við erum að vinna í því að koma í veg fyrir að hér skapist eitthvert hættuástand eða að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu. Það hefur verið skorið mikið niður á undanförnum árum. Alls hefur spítalinn skorið samtals niður um 32 milljarða frá 2007,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.
Í ályktun fundar Læknafélags Reykjavíkur og Félags almennra lækna er lýst áhyggjum af versnandi ástandi á spítalanum og í heilbrigðisþjónustunni. Talað er um vaxandi álag, erfiðar vinnuaðstæður og vanmat á störfum fagfólks.
Niðurskurðurinn hefur enn sem komið er ekki komið niður á öryggi sjúklinga að mati Björns og þakkar hann það samhent verk allra starfsmanna spítalans á þessum tíma. „Það hefur þurft að fækka starfsfólki úr 5.200 niður í 4.500 á þessum tíma en okkur hefur samt tekist að halda í jafn marga sérfræðilækna og hjúkrunarfræðinga og var árið 2007,“ segir Björn.
Hann tekur fram að verði ekki fljótlega hugað að tækjakaupum fyrir spítalann geti stefnt í vont ástand. Björn segir komið að þolmörkum spítalans bæði hvað varði niðurskurð og þörfina á endurnýjun tækjabúnaðar .