Ákvörðun Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra að hækka laun Björns Zoëga, forstjóra Landspítalans, braut ekki í bága við lög um að enginn embættismaður skuli hafa hærri laun en forsætisráðherra að mati Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.
Í viðtali við Fréttablaðið segir Jóhanna að um hækkun á læknishluta starfa Björns hafi verið að ræða. Jóhanna telur að upphafleg ákvörðun Guðbjarts hafi verið mistök en hún segir hann samt sem áður njóta trausts hennar. Allir geti gert mistök, Guðbjartur hafi viðurkennt sín og sé maður að meiri í kjölfarið.