Vísindamenn við Durham-háskólann í Englandi segja að „lítil ísöld“ á tímabilinu frá 16. til 19. aldarhafi gert heimskautarefnum kleift að helga sér land á Íslandi. Hafi á því kuldaskeiði myndast ísbrú til landsins.
Ísbrúin gerði refnum kleift að sækja til Íslands frá mismunandi heimskautasvæðum, svo sem frá Norður-Ameríku, Grænlandi og Rússlandi. Rannsókn vísindamannanna frá Durham á Íslandi og víðar þykir staðfesta mikilvægi hafíss við útbreiðslu og viðhalds stofna heimskautarefs á pólsvæðum.
Sömuleiðis er talið að aðrar dýrategundir hafi getað fært sig milli svæða nyrst í Evrópu fyrir tilstilli ísmyndunarinnar.
Fjölþjóðleg sveit vísindamanna undir forystu háskólans í Durham í Englandi gróf upp forn bein og leifar heimskautarefa á Íslandi, sem við aldursákvörðun reyndust frá níundu til tólftu aldar. Rannsókn á erfðaefni úr þeim voru borin saman við DNA úr nútímaref.
Niðurstaðan var sú, að genasamsetning refanna á Íslandi til forna var ætíð hin sama en núverandi refastofnar á Íslandi búi yfir fimm afdráttarlausum genamengjum. Líklegasta skýringin á því, segja vísindamennirnir, er blöndun vegna búsetuflutninga eftir lagnaðarísnum sem brúaði heimskautasvæðin á litlu ísöldinni.
„Jafnvel í dag tekur heimskautarefur að staðaldri á sig mörg hundruð kílómetra ferðalög eftir ís. Og þegar ísbrúin myndaðist var för hans um Norður-Atlantshafið til Íslands leikur einn, en við það jókst erfðafræðilegur fjölbreytileiki refasamfélagsins á Íslandi,“ segir Greger Larson við fornleifadeild háskólans í Durham.
„Lífið finnur sér alltaf farveg,“ sagði dr. Ian Malcolm í Jurassic Park. Í þessu tilviki, eftir að Litla ísöldin skall á, beið heimskautarefurinn ekki boðanna og lagði undir sig Ísland,“ bætir Larson við. Hann segir að möguleikar til dýraflutninga hafi dregist verulega saman á tuttugustu öldinni vegna hlýnunar í andrúmsloftinu.
Sjá umfjöllun um íslenska refinn í umfjöllun um Melrakkasetrið í Morgunblaðinu í dag.