„Þetta er orðið að opnum átökum“

Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur.
Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur. mbl.is

„Það hefur legið í loftinu að  Höskuldur Þórhallsson og  Sigmundur Davíð hafa ekki gengið í takt innan flokksins enda tókust þeir á um formannsembættið á sínum tíma. Nú er þetta orðið að opnum átökum sem lítið er reynt að fela,“ segir Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur í samtali við Vikudag á Akureyri.

Birgir segir að með þessu sé markað ákveðið rof í sögu Framsóknarflokksins og að í þessu felist ákveðin skilaboð. Fyrrverandi formenn flokksins, að undanskildum Ólafi Jóhannessyni og Guðna Ágústssyni, hafi allir verið í framboði eða flutt sig í framboð á höfuðborgarsvæðið. Það hafi verið yfirlýsing um að flokkurinn vildi sækja meira fylgi í þéttbýlinu.

„Nú bregður svo við að formaðurinn fer frá höfuðborginni og í landsbyggðarkjördæmi. Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvaða skilaboð felast í því. Staða flokksins hefur ekki mælst mjög sterk í Reykjavík og minningin um síðustu borgarstjórnarkosningar eru ekki uppörvandi fyrir framsóknarmenn.  Það munu eflaust koma fram raddir um að Sigmundur Davíð hafi ekki treyst sér fram í Reykjavík hvað svo sem kann að vera til í því,“ segir Birgir.

„ Hitt er þó ef til vill meira áhyggjuefni fyrir flokkinn hvort átökin  um oddvitasætið í Norðausturkjördæmi - höfuðvígi flokksins - verði það hörð að það spilli fyrir flokknum í kosningum. Það væri þá staða sem framsóknarmenn þekkja úr sögu flokksins, en þó  sérstaklega frá Reykjavík,“ segir Birgir í samtali við Vikudag.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Árni Sæberg
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður framsóknarflokksins. Heiðar Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka