Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist fagna því að Oddný G. Harðardóttir fjármála- og efnahagsráðherra væri sammála sér um að Íslendingar væru sjálfir færir um að setja sér reglur um meiri aga og aðhald í ríkisfjármálum en þyrftu ekki að lúta erlendu agavaldi í því efni með aðild að Evrópusambandinu (ESB).
Bjarni spurði Oddnýju út í þessi mál í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hann spurði ráðherra hvort hún teldi, eins og sumir, að skynsamlegt væri og jafnvel nauðsynlegt til að koma á aga og auknu eftirliti, að ganga í ESB, eða hvort Íslendingar væru færir um að setja sér slíkar reglur sjálfir.
Vitnaði Bjarni til vaxandi skoðunar á því í Evrópu að auka bæri samþættingu ríkisfjármála aðildarlandanna á vettvangi bandalagsins, þannig að það yrði ríkisfjármálasamband, sem hefði agavald gagnvart einstökum ríkjum.
Kallaði Bjarni eftir hugmyndum frá ríkisstjórninni hvernig hún hygðist ætla að taka á þessum málum. Þörf væri fyrir reglur til að lágmarka hættuna á kollsteypu í ríkisfjármálum og til að sporna við því að ríkisstjórn færi fram úr sér í fjármálum, eins og hann sagði sér sýnast núverandi stjórn vera á góðri leið með að gera.
Frumvarp í smíðum
Oddný G. Harðardóttir sagði að verið væri að semja frumvarp um opinber fjármál og í þeim væri tekið á þessum málum. Vonaðist hún til að þau yrðu kynnt síðar í haust og taldi að rík samstaða gæti tekist um þau á þingi. Húnsagði tímabært að setja reglur um aukinn aga í ríkisfjármálanum og sagðist sammála Bjarna Benediktssyni um að Íslendingar væru sjálfir þess megnugir að setja sér slíkar reglur. Hins vegar væru agareglur á vettvangi ESB engin hindrun.
Oddný sagði það vera pólitíska skuldbindingu núverandi stjórnarflokka að auka aga í ríkisfjármálum.