Hætt við hótelbyggingar vegna hækkunar virðisaukaskatts

Sigurður Ingi Jóhannsson er dýralæknir að mennt.
Sigurður Ingi Jóhannsson er dýralæknir að mennt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í fyrirspurnatíma á Alþingi, að hætt hefði verið við áform um byggingu 60 herbergja hótels í Skagaafirði vegna þeirrar óvissu sem við blasti í ferðaþjónustunni vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að hækka virðisaukaskatt á greinina.

Sigurður Ingi sagði að einnig, að af sömu ástæðu hefðu álíka áform í bæði Vík í Mýrdal og Reykhólasveit verið slegin af. 

Spurði þingmaðurinn Oddnýju G. Harðardóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, til hvaða landa hefðu verið sóttar fyrirmyndir ákvörðunar um að hækka virðisaukaskatt og tilgreindi í því sambandi lönd sem verið hefðu að lækka slíkan skatt til að örva sína ferðaþjónustu. Sagði Sigurður Ingi skýrslur óháðra aðila um áhrif aukinnar skattlagningar benda til að ferðamönnum myndi fækka og tekjur af greininni til ríkissjóðs því minnka.

Oddný G. sagði að hlutur ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu væri mun hærra hér en víðast hvar annars staðar. Hún sagði allar greiningar benda til að ferðamönnum til Íslands myndi ekki fækka þótt hún yrði færð í sama virðisaukaskattsþrep og aðrar greinar; fjölgun þeirra yrði bara ekki jafn mikil og verið hefði undanfarin ár.

„Við skulum leyfa greininni að vaxa við eðlilegar aðstæður en ekki með meðgjöf frá ríkinu,“ sagði ráðherrann í svörum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert