Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands. segir ljóst að störfum á Íslandi er ekki að fjölga né er að draga úr atvinnuleysi svo nokkru nemur.
„Það er því algerlega ótímabært að lýsa yfir einhverjum sigrum hvað þetta varðar. Það er einnig vandséð hvernig hægt er að líta á slíkt sem vitnisburð um árangursríka efnahagsstjórn – sérstaklega þegar um er að ræða ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og jafnrétti – en hitt er ljóst að ef stjórnvöld breyta ekki um kúrs í þessum málum er nokkuð ljóst hver viðbrögð kjósenda verða í vor,“ segir Gylfi í grein á vef ASÍ.
Hann segir það kröfu Alþýðusambandsins til allra ríkisstjórna, sem setið hafa að völdum á tímum atvinnuleysis og mikils tekjusamdráttar, að baráttan við þennan höfuðóvin eigi að hafa forgang umfram allt annað.
„Endurteknar deilur um flest það sem að bráðaaðgerðum í atvinnusköpun lýtur, hvort sem það er rammaáætlun, fiskveiðistjórnun, skipulag og fjármögnun samgönguverkefna, uppbygging nýs spítala, samskipti við erlenda fjárfesta sem hingað vilja koma eða afstaða til einstakra virkjana- eða stóriðjuverkefna eru vitnisburður sem fylgir þessari ríkisstjórn. Það er því ekki að furða að stefnuleysi og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum hafi vakið reiði.
En er atvinnuleysi er að minnka og störfum að fjölga eins og fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hafa verið iðnir við að benda á? Þeir fullyrða að fækkun atvinnulausra á skrá sýni fram á að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hafi borið mikinn árangur. Er það rétt?“ spyr Gylfi í greininni og kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki.