Siv hættir

Siv Friðleifsdóttir.
Siv Friðleifsdóttir. mynd/Johannes Jansson/norden.org

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs í komandi þingkosningum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Siv hefur sent fjölmiðlum.

„Fyrir nokkru tók ég þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér til endurkjörs í komandi alþingiskosningum. Þá ákvörðun tók ég í ljósi þess að ég hef í langan tíma lagt alla mína krafta í stjórnmál.

Ég hef verið alþingismaður í 18 ár og þar af ráðherra í 6 ár. Fyrst var ég kjörin á Alþingi 1995 og síðan endurkjörin 1999, 2003, 2007 og 2009. Árin 1999-2004 var ég umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna og síðan heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2006-2007. Þá var ég einnig bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi 1990-1998.

Í störfum mínum að stjórnmálum hef ég leitast við að vera rökvís og hafa hógværð, réttlæti og sanngirni að leiðarljósi. Það eru þau gildi sem treysta farsæld og reynast manni best þegar upp er staðið.

Á síðustu árum hef ég fengið tækifæri til að takast á við mörg krefjandi framfaramál og er stolt af þeim störfum. Stoltust er ég m.a. af því að leggja fram fyrstu náttúruverndaráætlun landsins. Við vinnslu hennar skoðaði ég um 70 svæði um allt land, sem sérfræðingar höfðu lagt til að yrðu vernduð vegna náttúruverndarhagsmuna. Einnig er ég stolt af tímabundinni friðun rjúpunnar, starfi að jafnréttismálum, vinnu við norrænt samstarf, gerð nýtingaráætlunar vegna vaxandi ferðamannastraums og framlagi mínu til byggingar nýs Barnaspítala og lýðheilsu- og neytendamála svo eitthvað sé nefnt. Af mörgu er að taka í þessu sambandi.

Mörg mál brenna mjög á mér, t. d. jafnréttismál og lýðheilsumál. Óska ég þess að samfélagið taki almennt miklu fastar á í báðum þessum málaflokkum, og á ég þá ekki bara við stjórnvöld heldur samfélagið allt, skólarnir, vinnustaðirnir og heimilin.

Í síðasta mánuði átti ég stórafmæli og stend því á nokkrum tímamótum. Ég met það svo að tíminn framundan sé kjörinn til að takast á við önnur verkefni. Hver þau verða mun tíminn leiða í ljós.

Kjósendum mínum þakka ég fyrir það trúnaðartraust sem þeir hafa sýnt mér með því að veita mér umboð til að starfa í þágu þjóðarinnar. Stuðningsmönnum mínum til langs tíma, sem hafa lagt mikla og óeigingjarna vinnu í flokksstarf og annað samfélagsstarf, vil ég þakka fyrir ómetanlegt framlag. Slíkir stuðningsmenn leggja grunninn að árangursríku stjórnmálastarfi. 

Þótt ég muni sjálf ekki vera í eldlínunni í komandi kosningum mun ég leggja allt kapp á að Framsóknarflokkurinn fái góða kosningu um allt land. Sá flokkur hefur að mínu mati lykilhlutverki að gegna á komandi kjörtímabili. Ég hlakka til baráttunnar sem framundan er,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert