Tekist á um launakjör seðlabankastjóra

mbl.is/Hjörtur

Fram fór fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun aðalmeðferð í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra gegn Seðlabanka Íslands vegna kjaraskerðingar sem hann varð fyrir árið 2009 vegna setningar laga um að laun seðlabankastjóra féllu undir Kjararáð. Ráðið tók síðan þá ákvörðun að lækka laun Más í samræmi við sömu lög um að dagvinnukaup embættismanna mætti ekki vera hærra en föst laun forsætisráðherra. Már mætti ekki sjálfur við aðalmeðferðina.

Við ráðningu voru laun Más tæplega 1,6 milljónir króna á mánuði en við skerðinguna fóru þau niður í 1,3 milljónir króna. Vegna þessa höfðaði Már mál gegn Seðlabankanum á þeim forsendum að úrskurður Kjararáðs hefði tekið gildi strax en ekki að loknum skipunartíma hans sem er til fimm ára. Seðlabankinn fór fram á að málinu yrði vísað frá á þeim forsendum að bankaráð hans væri ekki réttur fyrirsvarsaðili í málinu en Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri kröfu í apríl síðastliðnum.

Telur um verulega mismunun að ræða 

Við aðalmeðferðina benti lögmaður Más, Andri Árnason hæstaréttarlögmaður, á það að skjólstæðingur hans væri í raun einn af fáum sem féllu undir áðurnefnd lög sem hefðu orðið að taka á sig umrædda skerðingu fyrirvaralaust. Ítrekaði hann að það væri álit Más að hann ætti rétt á því að halda umsömdum launum úr skipunartímann.

Benti Andri á að nokkrar stofnanir á vegum hins opinbera hefðu ákveðið að fresta skerðingu launa hjá sér þar til ráðningarsamningar rynnu út. Ekki væri betur séð en að um væri að ræða verulega mismunun í það minnsta ef skjólstæðingur hans yrði að sætta sig við að þurfa að taka fyrirvaralausri skerðingu.

Hann hafnaði því ennfremur að Seðlabankinn væri ekki réttur aðili að málinu og vísaði í áðurnefndan úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur. Seðlabankinn væri launagreiðandi seðlabankastjóra en ekki ríkið og Kjararáð væri aðeins úrskurðaraðili en hefði ekki neinna hagsmuna að gæta gagnvart málinu. 

Sagði skerðinguna hafa verið fyrirsjáanlega

Lögmaður Seðlabanka Íslands, Karl Ólafur Karlsson hæstaréttarlögmaður, gerði þá kröfu að bankinn yrði sýknaður af öllum kröfum Más og hann dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Hann ítrekaði ennfremur það sjónarmið að Seðlabankinn gæti ekki verið aðili málsins enda snerist það um ákvörðun Kjararáðs sem bankinn hefði ekki forræði á.

Þá lagði hann áherslu á að umrædd lagasetning frá 2009 hefði verið sett með stjórnskipulega réttum hætti, um það væri ekki deilt. Markmið þeirra hefði verið aðhaldsaðgerðir í rekstri ríkisins til þess að bregðast við stórfelldu tekjutapi ríkissjóðs vegna bankahrunsins og þá hefðu lögin haft almenna skírskotun.

Tók hann ýmis dæmi um bæði launskerðingar og skerðingar lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna sem komið hefðu til kasta dómstóla og verið dæmdar löglegar hefðu þær uppfyllt ströng skilyrði. Það er eins og áður segir að þær byggðust á heimild í lögum, væru byggðar á málefnalegum forsendum, til að mynda vegna fjárhagsvanda, og væru almenns eðlis.

Þá sagði Karl að fyrirséð hefði verið að umrædd lög yrðu sett þegar samið hefði verið um laun Más og því hefði skerðingin ekki átt að koma á óvart. Þá lagði hann áherslu á að ekki væri verið að skerða réttindi Más á neinn hátt heldur einungis lækka laun hans. Með vísan í ákvörðun ýmissa ríkisstofnana um að fresta skerðingu launa hjá sér þar til ráðningarsamningar rynni út sagði hann að seðlabankastjóri ynni ekki rétt á grundvelli rangra ákvarðana þessa stofnana. 

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Hörður Ægisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert