Þingflokkur sjálfstæðismanna á ALþingi hefur lagt fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra leggi tillögur verkefnisstjórnarinnar fram óbreyttar á Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar.
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að umhverfisráðherra leggi fram að nýju tillögu um vernd og nýtingu orkukosta, en tillaga þessa efnis var ekki útrædd á síðasta þingi.
Búið er að vinna að þessari áætlun í mörg ár, en sérstakri verkefnisstjórn um rammaáætlun var falið að vinna að áætluninni. Í skýrslunni raðaði verkefnisstjórnin virkjunarkostum í samræmi við niðurstöður og niðurröðun faghópa á grundvelli faglegrar vinnu og samráðs. Verkefnisstjórnin flokkaði virkjunarkostina ekki líkt og kveðið er á um í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, enda var verkefnisstjórninni ekki falið að gera tillögu að slíkri flokkun.
„Eftir skil hennar fór því í gang ógagnsætt ferli við flokkun virkjunarkosta þar sem ekki var að öllu leyti byggt á niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar heldur virðist ráðherra hafa látið pólitísk sjónarmið ráða för. Þarna urðu skil í því faglega ferli sem fram að því hafði einkennt alla vinnu að rammaáætluninni,“ segir í greinargerð með frumvarpi sjálfstæðismanna.
Þingmennirnir segja brýnt að tryggja að sátt ríki um ákvarðanir um verndun og nýtingu landsvæða og orkuauðlinda. Er það í samræmi við stefnu stjórnvalda sem til margra ára hefur verið að byggja ákvarðanatöku um vernd og orkunýtingu á faglegum forsendum. „Sú var mörkuð árið 2003 í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og var síðar staðfest árið 2007 í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar þegar ákveðið var að skipuð yrði fagleg verkefnisstjórn fyrir vinnu við 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Sú stefna hefur falið í sér að hinar faglega unnu niðurstöður og tillögur yrðu lagðar fyrir Alþingi. Þeirri stefnu var ekki fylgt til enda og því ljóst að grípa þarf inn í ferlið með lagabreytingu til að tryggja að faglega sé staðið að gerð verndar- og orkunýtingaráætlunar.“
Sjálfstæðismenn leggja því til að ráðherra leggi tillögur verkefnisstjórnarinnar fram óbreyttar á Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar. Þannig sé tryggt að við ákvörðun um verndun og um orkunýtingu „sé byggt á faglegum grundvelli, vísindalegum gögnum, gagnsærri aðferðafræði og þeirri miklu og ítarlegu vinnu sem síðasta verkefnisstjórn um rammaáætlun hefur innt af hendi og fær nú tækifæri til að ljúka.“