Alvarlegir öryggisgallar eru á rekstri bókhaldskerfis sem ríkið keypti af Skýrr árið 2001. Þetta er fullyrt í fréttaskýringu sem Kastljós birti í kvöld. Þar segir ennfremur að farið sé á svig við viðurkenndar reikningsskilavenjur og eldveggir milli stofnana séu lekir.
Kastljós hóf í gær að fjalla um bókhaldskerfi ríkisins, en Ríkisendurskoðun hefur unnið að skýrslu um málið. Skýrslan er ekki tilbúin og hefur ekki verið kynnt Alþingi þrátt fyrir að nokkur ár séu síðan stofnuninni var falið að vinna skýrslu um innleiðingu kerfisins og kostnað við það.
Innleiðing bókhaldskerfisins hefur kostað yfir fjóra milljarða króna. Í Kastljósi í kvöld kom fram að mikið vanti á að kerfið uppfylli öryggisstaðla. Þannig geti sama manneskjan tekið við reikningum, bókað þá, samþykkt og greitt reikninga.
Vitnað er í drög að skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem segir að stofnunin telji að um alvarlegan öryggisveikleika sé að ræða sem geti leitt til hugsanlegra mistaka eða misnotkunar og „því valdið ríkissjóði miklum skaða“.
Einnig segist Kastljós hafa séð tölvupósta frá notendum kerfisins þar sem kvartað er yfir því að hægt sé „að opna, bóka eða bakfæra færslubækur sem aðrar stofnanir eiga í kerfinu“.
Frétt RÚV um málið.