„Það er ekki spurning hvort heldur hvenær það verður alvarlegt umferðarslys vegna farsímanotkunar ökumanna. Kannski hefur það þegar gerst,“ segir Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu.
„En það eru engar marktækar tölur til um þetta og erfitt að fá staðfestingu á farsímanotkun ökumanna, það er erfitt að fá þá til að viðurkenna að þeir hafi notað símann undir stýri.“
Sú spurning vaknar að þar sem ökumönnum er skylt að blása í blöðrur til að mæla áfengis- fíkniefnaneyslu, hvers vegna má þá ekki skylda fólk til að gefa upplýsingar um farsímanotkun? „Þetta hefur með persónuvernd að gera og lögregla verður að hafa rökfastan grun og úrskurð dómara,“ segir Einar Magnús.
Hann segir að starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins um áratug aðgerða í umferðaröryggismálum sé nú að skoða hvaða úrræði séu tiltæk til að auðvelda lögreglu að rannsaka mál af þessu tagi. „Það viðhorf er ríkjandi meðal þeirra sem vinna að umferðaröryggismálum hér á landi að það þyrfti að auðvelda lögreglu að fá upplýsingar um símanotkun ökumanna og taka fastar á þessu,“ segir Einar Magnús.
Hann segir að notkun farsíma við akstur sé víða um heim litinn mjög alvarlegum augum Víða erlendis hafa ökumenn verið dæmdir í fangelsi fyrir manndráp af gáleysi hafi þeir orðið valdir að dauða einhvers vegna ólöglegrar símanotkunar við akstur.
Samkvæmt könnun, sem gerð var af Capacent fyrir Umferðarstofu á síðasta ári, tala rúm 80% ökumanna oft, stundum eða sjaldan í farsíma án handfrjáls búnaðar undir stýri. Séu svör skoðuð eftir kynjum sést að fleiri karlar tala oft í síma undir stýri en konur.
Athyglisvert er að bera það saman við svör við spurningunni: „Hvaða hegðun annarra veldur þér helst álagi við akstur“. Þar kemur í ljós að farsímanotkun annarra ökumanna veldur tæpum 43% þeirra sem svöruðu álagi. Skortur á notkun stefnuljósa er það atriði sem helst veldur álagi við akstur, en það er, að sögn Einars Magnúsar, einkenni „símaglaðra“ ökumanna.
Hann segir að helst megi líkja akstursmáta fólks, sem tali í símann undir stýri, við að það sé undir áhrifum áfengis eða vímuefna.
„Það eru ekki gefin nein stefnuljós, fólk fer yfir á öfugan vegarhelming, það heldur ekki beinni stefnu og hugurinn er allt annars staðar en við aksturinn. Þó að við höfum ekki rannsóknir til að staðfesta það má samt ætla að þetta sé ein helsta orsök athyglisbrests í umferðinni í dag. Og þó að það sé heimilt að tala í síma á meðan á akstri stendur, svo lengi sem notaður er handfrjáls búnaður sýna rannsóknir samt að hættan er vart minni þótt handfrjáls búnaður sé notaður. Athyglisbresturinn er, að segja má, jafn mikill.“