Sjö af níu núverandi þingmönnum Framsóknarflokksins sækjast eftirsætum á framboðslista fyrir næstu alþingiskosningar. Flestir þeirra framsóknarmanna sem gáfu kost á sér en komust ekki á þing eru annaðhvort óákveðnir með framhaldið eða hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér.
Því er ekki að vænta mikillar breytingar í framlínu flokksins. Eftir kjördæmaþingin munu ný andlit þó koma fram í öðrum sætum.
Til tíðinda dró í gær þegar Eygló Harðardóttir tilkynnti að hún sæktist eftir 1. sætinu í Suðvesturkjördæmi. Þar var fyrir Siv Friðleifsdóttir sem ætlar að hætta á þingi. Helga Sigrún Harðardóttir var í 2. sæti í kjördæminu en hún er hætt í flokknum. Gestur Valgarðsson var í 3. sætinu en hefur ekki ákveðið framhaldið.
Meiri athygli fékk þó slagurinn um 1. sætið í Norðausturkjördæmi. Birkir Jón Jónsson hyggst láta af þingmennsku og skilur þar með eftir laust 1. sætið. Vill þá svo til að bæði formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og þingmaðurinn Höskuldur Þórhallsson vilja sætið.
Spurður út í þetta sagðist Höskuldur hafa beðið formanninn, á fundi í gær um að sækjast ekki eftir sætinu heldur bjóða sig fram í Reykjavík.
Fréttavefur Morgunblaðsins bar þessa bón undir Sigmund Davíð sem sagði að þeir hlytu að finna lausn.
Þá hafnaði Höskuldur því að hafa verið látinn vita af ákvörðun Sigmundar Davíðs fyrirfram, líkt og formaðurinn og Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri flokksins, héldu fram í samtali við Morgunblaðið.
Staðan í hinum kjördæmunum er annars sem hér segir. Birkir Jón hættir í 1. sæti í Norðausturkjördæmi en í 2. sætinu var Höskuldur Þór Þórhallsson sem komst á þing. Huld Aðalbjarnardóttir var í þriðja sæti og Sigfús Karlsson í því fjórða.
Huld sækist ekki eftir sætinu en Sigfús á eftir að ákveða framhaldið.
Sigfús telur vígstöðuna góða.
„Við getum ekki horft fram hjá því að í síðustu kosningum voru mörg atkvæði sem fóru frá Framsókn yfir á Vinstri græna og það var einkum út af Evrópumálunum. Allir vita hvað hefur gerst. VG hefur svikið afstöðu sína til ESB en Framsókn hefur tekið afgerandi afstöðu gegn ESB. Við væntum þess að endurheimta eitthvað af því fylgi sem við misstum í síðustu kosningum,“ sagði Sigfús en VG fékk þar þrjá á þing.
Vigdís Hauksdóttir staðfesti í samtali við Morgunblaðið að hún sæktist eftir 1. sætinu í Reykjavík suður. Einar Skúlason var þar í 2. sæti en hann sagði skilið við flokkinn í ágúst sl. Guðrún H. Valdimarsdóttir var í 3. sætinu. Hún segist hafa fengið mikla hvatningu um að bjóða sig fram og hafi íhugað að gera það. Það sé hins vegar ólíklegt að hún fari fram að svo stöddu. Eftir því sem Morgunblaðið komst næst eru engin staðfest nöfn komin á blað í 2. og 3. sæti í Reykjavík suður.
Fyrsta sætið er hins vegar laust í Reykjavíkurkjördæmi norður eftir að Sigmundur Davíð ákvað að færa sig norður. Ásta Rut Jónasdóttir var í 2. sætinu en ekki náðist í hana. Þórir Ingþórsson var í því þriðja og sagðist mundu íhuga framhaldið.
Í Suðurkjördæmi ætlar Sigurður Ingi Jóhannsson áfram að sækjast eftir 1. sætinu. Eygló skiptir um kjördæmi og stefnir Birgir Þórarinsson á 2. sætið í hennar stað en hann var í því þriðja. Bryndís Gunnlaugsdóttir var í 4. sætinu en sagði af sér varaþingmennsku.
Gunnar Bragi Sveinsson sækist áfram eftir 1. sætinu í Norðvesturkjördæmi en tveir stefna nú á 2. sætið, líkt og rakið er á grafinu hér fyrir ofan.