Lét af formennsku vegna ósættis

Sigríður Ingvarsdóttir hefur verið veitt lausn frá formennsku í rannsóknarnefnd …
Sigríður Ingvarsdóttir hefur verið veitt lausn frá formennsku í rannsóknarnefnd Alþingis um fall sparisjóðanna að eigin beiðni. Ástæðan var sú að hún fékk ekki framlengt leyfi frá dómstörfum og vegna óeiningar innan nefndarinnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Formaður rannsóknarnefndar Alþingis sem skoðar fall sparisjóðanna hefur beðist lausnar frá störfum. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið í kvöld en þar segir að nefndin hafi klofnað í ágreiningi um hvernig rannsókninni skyldi hagað. Talið er útséð um að nefndin skili niðurstöðu sinni fyrir lok þessa árs.

Í nefndina voru skipuð á síðasta ári þau Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari, Tinna Finnbogadóttir hagfræðingur og Bjarni Frímann Karlsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Sigríður var í forsvari fyrir nefndina.

Nefndin átti að skila niðurstöðu í júní 2012

Nefndinni var gert að skila niðurstöðu sinni í júní á þessu ári en umfang rannsóknarinnar, sem miðaðist að því að rannsaka aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna, er slíkt að rannsóknin hefur dregist úr hömlu.

Þegar Sigríður var skipuð í nefndina fékk hún ársleyfi frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Beiðni hennar um lengra frí frá dómstörfum var hafnað og er það meðal annars ástæðan fyrir lausnarbeiðni hennar, en auk þess segir hún að óeining og vantraust hafi verið í nefndinni og að nefndin hafi klofnað í ágreiningi um hvernig haga skyldi rannsókninni.

Lögfræðilegi þátturinn olli ágreiningi í nefndinni

Fréttastofa RÚV hefur eftir Sigríði að ágreiningur hafi fyrst hafist þegar „lögfræðin fór að vera meiri þáttur í rannsókninni og í þeim greiningum sem þurftu að liggja fyrir til að hægt væri að komast að niðurstöðu um það sem þingsályktunin segir að rannsóknin eigi að leiða til lykta“.

Einnig segir Sigríður: „Í lögunum um rannsóknarnefndir segir bara að meirihlutinn ráði því hvernig framkvæma skuli rannsóknina, verði ágreiningur um það, og meðnefndarmenn mínir mynduðu meirihluta gegn mér, og þar með var ég orðin gangslaus stjórnandi í þessari nefnd.“

Nýr formaður verður skipaður á morgun

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hefur staðfest að Sigríði hafi verið veitt lausn frá störfum og að nýr formaður verði skipaður á morgun. Ásta Ragnheiður segist vongóð um að rannsókninni muni áfram miða vel og segist hafa trú á að það komi skýrsla frá nefndinni í upphafi næsta árs.

„Það var alveg ljóst fyrir þó nokkru að málið var mun umfangsmeira en upphaflega var talið og það var komið í ljós að það var ekki mögulegt að klára þetta fyrir áramót,“ sagði Ásta Ragnheiður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert