„Ný stefna í heilbrigðismálum Íslendinga, sem mótuð er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi og aðstandendur þeirra og byggist á heildarlögum frá Alþingi um heilbrigðisþjónustu, þolir enga bið.“ Þetta segir í ályktun sem Hollvinasamtök líknardeilda samþykktu í gær.
„Við héldum þessa ráðstefnu af því að okkur finnst að það megi hafa meira samráð við þjóðina og við fólkið í landinu, enda þótt velferðarráðuneytið hafi haft samráð við fjölda manns við gerð sinnar skýrslu um málið þá held ég að það hefði mátt hafa miklu víðara samráð,“ segir sr. Örn Bárður Jónsson, formaður Hollvinasamtaka líknardeilda. Ráðstefnan var haldin um stefnumörkun í heilbrigðismálum á Íslandi undir yfirskriftinni Frá vöggu til grafar.
Vísar sr. Örn Bárður þar í skýrsludrög sem ráðuneytið hefur látið vinna vegna markmiða sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sett fram um nýja heilbrigðisstefnu fyrir árið 2020. Norðmenn hafa nú þegar endurskoðað heilbrigðisstefnu sína og var hún kynnt á ráðstefnunni.
„Kannski hefði þurft að leggja þetta einhvern veginn út á netið og leyfa fólki segja sitt um þetta. Það er svo auðvelt í dag að fá viðbrögð fólks,“ segir sr. Örn Bárður.
Um markmið ráðstefnunnar sagði í fundarboði: „Markmiðið er að hafa áhrif á Alþingi og ríkisstjórn að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi í samræmi við þarfir, skoðanir og vilja fólksins í landinu.“
Spurður um viðbrögð Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra sem sat ráðstefnuna, segir sr. Örn Bárður: „Velferðarráðherra mæltist vel í okkar garð og lýsti því að hann vildi gott samstarf um þróun þessara mála.“
„Heilbrigðisþjónustan er svo mikilvæg og hún snertir okkur öll og þar af leiðandi þarf að vanda mjög til skipulags hennar og hún þarf að vera nálægt fólkinu. Ég er hræddur við of mikla samþjöppun og sameiningu. Það er svolítið mál að fara um landið í öllum veðrum og grunnþjónustan þarf að vera nálægt fólki og þarf að huga vel að þessu að fólkið sogist ekki allt hingað á suðvesturhornið af því að hér er allt. Það verður einhvern veginn að skapa jafnvægi og efla byggðir vítt og breitt um landið.“
„Stundum geta stórar einingar verið hagkvæmar en ég held að við verðum að hugsa meira út frá hinu smáa. Það getur haft ákveðna hagræðingu í för með sér, en mér sýnist þegar verið er að sameina allskonar stofnanir í landinu í nafni sparnaðar að það sé aldrei sannað eða sýnt fram á að það hafi verið neinn raunverulegur sparnaður af því.“
„Ég man eftir því á tímabili að þá voru skjólstæðingar mínir hér í Vesturbænum sendir í vistun á elliheimilum úti á landi. Það var hér sóknarbarn hjá mér sem var allt í einu komið austur á Klaustur,“ segir sr. Örn Bárður.
Hann segir út frá almennri skynsemi best að starfa í litlum einingum. „Auðvitað geta hátækniskurðstofur ekki verið í hverjum bæ, en það verður þá að efla mjög sjúkraflutninga og tryggja að fólk finnist það vera öruggt og fái skjóta og örugga þjónustu ef á þarf að halda. Að það sé ekki ótti og uggur í fólki að það búi ekki við öryggi út af fjarlægð frá stofnunum,“ segir sr. Örn Bárður.
Hann segir að það megi ekki hugsa allt úr frá krónum og aurum. Þó það sé dýrt að búa dreift geti verið til hagkvæmar einingar, það fari eftir því hvernig þær séu reknar. „Það er líka í þessu stóra batteríi hér í Reykjavík og þessu fjölmenni erfiðara oft að ná saman þeirri nýtingu sem þarf því á litum stöðum þekkjast allir og alltaf hægt að kalla inn fólk og fylla upp í ef losnar,“ segir sr. Örn Bárður.
Hollvinasamtökin samþykktu ályktun á ráðstefnunni þar sem skorað er á Alþingi að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi sem mótað sé í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi sem og aðstandendur þeirra.
Ályktun samtakanna í heild sinni:
„Ráðstefna Hollvinasamtaka líknardeilda, haldin í Reykjavík 24. september 2012, skorar á Alþingi að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi sem mótað er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi – og aðstandendur þeirra.
Svæðisnefnd Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO í Evrópu hefur samþykkt heilbrigðisáætlun sem nefnd er Health 2020. Þar er lögð áhersla á aðgerðir til að vinna að bættri heilsu og vellíðan fólks, draga úr ójöfnuði, styrkja lýðheilsu og tryggja sjálfbært, notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi sem um leið uppfyllir ströngustu gæðakröfur. Sérstök áhersla er lögð á að tryggja hag þeirra sem eiga undir högg að sækja í heilsufarslegum efnum.
Í samræmi við þetta hefur áætlun um nýtt heilbrigðiskerfi tekið gildi í Noregi. Áætlunin er nefnd SAMHANDLINGSREFORMEN –samstarfsáætlun um endurbætur í heilbrigðiskerfinu, þar sem almenn heilbrigðisþjónusta og umönnun aldraðra og deyjandi er sameinuð undir eina stjórn og lögð áhersla á forvarnir og mælt fyrir um aukið samstarf heilbrigðisstofnana og að færa heilbrigðisþjónustu nær fólkinu.
Ný stefna í heilbrigðismálum Íslendinga, sem mótuð er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi og aðstandendur þeirra og byggist á heildarlögum frá Alþingi um heilbrigðisþjónustu, þolir enga bið.“
Tengdar fréttir: