Segist ekki hafa vitað um fyrirætlun Sigmundar Davíðs

Höskuldur Þór Þórhallsson
Höskuldur Þór Þórhallsson

Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir það ekki rétt að hann hafi beðið Sigmund Davíð Gunnlaugsson um að fara fram í Reykjavík heldur hafi hann sagt að það væri farsælast fyrir Framsóknarflokkinn ef Sigmundur Davíð myndi fara fram í Reykjavík. Fjallað var um málið á mbl.is í gær.

Aðspurður hvort það sé rétt sem Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, segir í Morgunblaðinu í dag um að Hrólfur hafi haft samband við Höskuld sl. fimmtudag og sagt honum að Sigmundur Davíð ætlaði að bjóða sig fram í NA-kjördæmi, segir Höskuldur það ekki rétt. Hrólfur hafi ekki tjáð honum um þessa fyrirætlun Sigmundar Davíðs.

Hrólfur segir í samtali við Morgunblaðið að hann hefði jafnframt beðið Höskuld að halda trúnað um það. Höskuldur hefði því vitað að Birkir Jón Jónsson væri að hætta á þingi og að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætlaði að bjóða sig fram í kjördæminu.

Hrólfur kveðst ekki hafa tilgreint hvaða sæti Sigmundur myndi sækjast eftir. Það væri frambjóðendanna að ákveða sæti sem þeir sæktust eftir.

Að sögn Höskuldar er staðan óbreytt, þeir Sigmundur Davíð stefni báðir á fyrsta sætið í Norðausturkjördæmi í komandi þingkosningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert