Lítið hefur dregið úr útgreiðslu séreignalífeyrissparnaðar á umliðnum mánuðum. Skv. upplýsingum fjármálaráðuneytisins námu umsóknir um útborgun 13 milljörðum kr. frá áramótum til loka ágústmánaðar.
Frá því að launafólki var heimilað að taka út séreignasparnað til að mæta brýnum fjárhagsvanda í mars 2009 hafa alls verið greiddir út um 75 milljarðar kr.
Heimildin hefur verið framlengd nokkrum sinnum en hún er nú að renna út og er síðasti dagur til þess að sækja um útgreiðsluna næstkomandi sunnudag, 30. september.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að samkvæmt skattframtölum voru heildarúttektir á sérstökum séreignasparnaði 21,7 milljarðar 2009, 16,5 milljarðar á árinu 2010 og 23,6 milljarðar í fyrra.