Miðstjórn ASÍ krefst þess að ríkisstjórn og Alþingi tryggi að kjör þeirra tekjulægstu dragist ekki aftur úr kjörum annarra hópa. Þetta kemur fram í ályktun sem miðstjórn ASÍ hefur sent frá sér.
„Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að þeir sem hafa verið án atvinnu lengur en fjögur ár missi rétt til atvinnuleysisbóta og þurfi því að leita eftir fjárhagsaðstoð frá sínu sveitarfélagi, að atvinnuleysisbætur hækki einungis um rúmar 5.400 kr. þegar almennir launataxtar hækka um 11.000 kr. Þá er hvorki gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki til samræmis við hækkun almennra launataxta né heldur er gert ráð fyrir fjármagni til að draga verulega úr tekjutengingum milli lífeyrissjóða og almannatrygginga.
Miðstjórn ASÍ minnir á að ríkisstjórnin lofaði við gerð síðustu kjarasamninga að beita sér fyrir því að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækkuðu til samræmis við almennar taxtahækkanir. Miðstjórnin skorar á ríkisstjórn og Alþingi að standa við gefin loforð.“