Mínútuspursmál hvort sjúklingur lifir af

Farið er í fjölmörg sjúkraflug á hverju ári.
Farið er í fjölmörg sjúkraflug á hverju ári.

„Á síðasta ári voru a.m.k. tvö tilfelli þar sem það var aðeins mínútuspursmál hvort sjúklingur [í sjúkraflugi] hefði það af. Einn lenti í hjartastoppi þegar verið var að rúlla honum inn á skurðstofu á Landspítalanum. Ef flugvélin hefði lent í Keflavík þá hefði þetta fólk trúlega ekki lifað. [...] Þetta er ekki bara tölfræði heldur fólk.”

Þetta er haft eftir lækni á Akureyri í nýrri skýrslu KPMG um áhrif flutnings innanlandsflugs frá Reykjavík til Keflavíkur. Í skýrslunni kemur fram að kostnaður við sjúkraflug myndi aukast við flutninginn og öryggi sjúklinga minnka.

Landspítali háskólasjúkrahús (LSH) fer með ýmsa sérhæfða þjónustu sem af hagkvæmni- og kostnaðarsjónarmiðum er illa hægt að réttlæta að sé byggð upp á mörgum stöðum á landinu.

Svo þetta fyrirkomulag gangi upp og íbúar landsbyggðarinnar njóti þjónustunnar til jafns við íbúa höfuðborgarsvæðisins verða greiðar flugsamgöngur að vera til staðar. Þannig er sjúkraflug í dag afskaplega mikilvægur öryggisþáttur fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

460 sjúkraflug á ári

Fjöldi sjúkraflutninga í sjúkraflugi hefur farið vaxandi á undanförunum tíu árum og eru að meðaltali um 460 flug á ári á undanförnum fimm árum og 487 sjúklingar á ári á sama tíma. Árið 2011 voru yfir 500 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi.

Í rúmum helmingi tilfella fara læknar með í flug, en þeir fylgja sjúklingum í öllum forgangsflugum. Læknir sem fylgir sjúklingi í forgangsflugi, fylgir honum ekki bara í fluginu sjálfu því í nær öllum tilfellum verður hann að fylgja sjúklingi þangað til hann kemst í hendur annars læknis.

Ef innanlandsflug flyst til Keflavíkur þyrfti hann því að fylgja sjúklingi frá Keflavík til Reykjavíkur og fara síðan sömu leið til baka en flugvélin biði á meðan. Það bindur flugvél, flugmenn, lækni og sjúkraflutningamann í allt að tvær klukkustundir aukalega frá því sem nú er, segir í skýrslunni sem KPMG vann fyrir sex sveitarfélög á landsbyggðinni.

Ef Reykjavíkurflugvelli verður lokað og innanlandsflug fært til Keflavíkur mætti færa rök fyrir því að byggja ýmiskonar sérhæfða þjónustu upp utan höfuðborgarsvæðisins, ýmist nær flugvellinum í Keflavík eða á landsbyggðinni. T.d. vaknar sú spurning hvort frekar ætti byggja nýtt hátæknisjúkrahús nær flugvellinum í Keflavík, þannig að það þjóni landsbyggðinni betur.

Þyrla kemur ekki í stað sjúkraflugs

Þyrla, jafnvel staðsett á Akureyri, gæti ekki komið í stað sjúkraflugs í núverandi mynd og kemur þar margt til: Flugvélin er hreinlega afkastameiri, þ.e. þyrla næði ekki að flytja 500 sjúklinga á ári. Þyrla hefur minni flugdrægni, minni flughraða og er verulega háð því að hægt sé að fljúga sjónflug. Því er hætta á að mismunandi veðurlag sunnan og norðan heiða myndi draga veruleg úr notagildi þyrlunnar, segir í skýrslu KPMG.

Ef innanlandsflug flyst frá Reykjavík til Keflavíkur án þess að til komi breytingar á uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á landinu eða tilfærsla hennar mun það hafa tvær megin afleiðingar í för með sér:

Kostnaður við að sækja heilbrigðisþjónustu mun aukast fyrir íbúa landsbyggðarinnar sem nemur ferðalaginu frá Keflavík til Reykjavíkur og öllu því sem það felur í sér.

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni er í raun gerð verri þar sem landsbyggðin færist fjær nauðsynlegri bráðaþjónustu sem og annarri sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, samkvæmt skýrslu KPMG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert