Erfitt en alveg þess virði

Hjúkrunarfræðingar íhuga margir að störf í Noregi til lengri eða …
Hjúkrunarfræðingar íhuga margir að störf í Noregi til lengri eða skemmri tíma. Mbl.is/Golli

„Það eru náttúrulega fyrst og fremst launin,“ segir Edda Jörundsdóttir hjúkrunarfræðingur, aðspurð hvers vegna hún hafi sótt um starfsleyfi í Noregi. Edda var ein af um 150 hjúkrunarfræðingum sem sóttu í kvöld kynningarfund um atvinnumöguleika í Noregi.

Edda hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu Landspítalans í 10 ár en útskrifaðist úr sérfræðinámi sem svæfingahjúkrunarfræðingur síðasta vor. Eitt af því sem hjúkrunarfræðingar hafa verið óánægðir með við kjör sín á Íslandi er hve lítils viðbótarmenntun og sérhæfing er metin milli launaþrepa.

Dýrara að lifa en mun hærri laun

„Ég fékk rúmar 8 þúsund krónur í launahækkun hér fyrir þetta nám, sem tók mig tvö ár, en það er metið talsvert meira úti en hér,“ segir Edda. Hún fór í mánuði til Ósló í vor og vann á Ullevål sjúkrahúsinu sem hluta af starfsnámi. „Það gaf mér byr undir báða vængi og ég vil fara aftur. Það sem vakir fyrir mér er að fara í afleysingastörf fyrst og minnka þá jafnvel starfsprósentuna á Landspítalanum ef mér líkar þetta, en svo er alveg inni í myndinni að flytja til Noregs.“

Margir hjúkrunarfræðingar á gjörgæslu Landspítalans hafa gert einmitt það, minnkað við sig starfshlutfall hér og farið á milli Noregs og Íslands til að drýgja tekjurnar. Sumir hafa flust alfarið út, eins og íslenskur svæfingahjúkrunarfræðingur sem Edda heimsótti í Ósló. „Hún lét vel af þessu enda eru kjörin mun betri. Ég myndi segja að það sé um 30% dýrara að lifa úti, en launin eru helmingi hærri og rúmlega það ef þú ert fastur starfsmaður. Og ef þú ferð sem [afleysingastarfmaður] eru þau margfalt hærri.“

Ævintýramennska og almenn blankheit

Um 150 hjúkrunarfræðingar sóttu fundinn í kvöld, en þar kynnti félagið Sólstöður möguleikana á afleysingastörfum til lengri eða skemmri tíma í Noregi. Sólhildur Ottesen hjúkrunarfræðingur er ein þeirra sem farið hafa nokkrum sinnum til starfa í Noregi í allt að 5 vikur í senn. Hún efndi til fundarins ásamt tveimur öðrum með svipaða reynslu, vegna þess að þau fengu stöðugar fyrirspurnir fá öðrum hjúkrunarfræðingum.

Sjálf segir Sólhildur að það hafi verið blanda af „ævintýramennsku og almennum blankheitum“ sem fengu hana til að fara fyrst út. Reynslan var svo góð, ekki síst af laununum, að hún endurók leikinn. Hún segir greinilegt að áhugi annarra hjúkrunarfræðinga fari stigvaxandi. „Það var stöðugt verið að hringja í okkur sem höfum farið og spyrja um allt mögulegt svo við ákváðum að gefa fólki tækifæri á að koma saman og fræðast um þetta.“

Góður aðbúnaður og vinnuumhverfi

Aðspurð segir hún að hjúkrunarfræðingar á öllum aldri séu að íhuga þennan kost, það eigi ekki bara við um nýútskrifaða. Launin séu fyrst og fremst það sem togi, ekki síst hjá sérmenntuðum hjúkrunarfræðingum, en líka þægilegt vinnuumhverfi, góður aðbúnaður og jákvæður andi. „Ég fann fyrir mikilli vinsemd sem Íslendingur. Norðmönnum þykir vænt um Ísland og sýna manni mikinn áhuga,“ segir Sólhildur.

Hún bendir auk þess á að útiveran sé tækifæri fyrir íslenska hjúkrunarfræðinga sem stétt, ekki bara sem einstaklinga. Þeir sem fari út komi margir aftur reynslunni ríkari og margs vísari.

Þær Sólhildur og Edda segja báðar að helsta hindrunin sé tungumálið, enda hjúkrun samskiptastarf. Norðmenn séu hins vegar umburðarlyndir á meðan Íslendingar séu að ná góði færni. „Þetta er erfitt, en ekkert óyfirstíganlegt og alveg þess virði,“ segir Edda. 

Sólhildur Ottesen hjúkrunarfræðingur sagði frá reynslu sinni í Noregi og …
Sólhildur Ottesen hjúkrunarfræðingur sagði frá reynslu sinni í Noregi og Rósa Þorsteinsdóttir útskýrði hvernig sækja má um hjúkrunarleyfi þar. mbl.is/Golli
Starfskynningarfundurinn í kvöld var vel sóttur og þurftu sumir að …
Starfskynningarfundurinn í kvöld var vel sóttur og þurftu sumir að standa þar sem hvert sæti var skipað. Mbl.is/Una Sighvatsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert