Flugferðum myndi fækka um 40%

Flugturninn á Reykjavíkurflugvelli
Flugturninn á Reykjavíkurflugvelli mbl.is/Árni Sæberg

Flugferðum mun fækka um allt að 40% á einstökum flugleiðum innanlands ef miðstöð innanlandsflugs flyst til Keflavíkur. Þetta kemur fram í skýrslu sem KPMG vann fyrir sex sveitarfélög á landsbyggðinni. Ferðakostnaður íbúa landsbyggðarinnar myndi aukast um 6 til 7 milljarða króna á ári.

Samkvæmt skýrslu KPMG myndi flugferðum fækka úr 37 í 18 á dag og innanlandsflug í núverandi mynd leggst af til Ísafjarðar, Hornafjarðar og Vestmannaeyja. Þannig er aðeins gert ráð fyrir 20% fækkun farþega til og frá Egilsstöðum en 30% fækkun til og frá Ísafirði og Höfn og loks 40% fækkun til og frá Akureyri og Vestmannaeyjum.

Byggt á þessum forsendum mun áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða halda áfram með nokkuð svipuðu sniði.

Flugferðum til Akureyrar og Egilsstaða myndi fækka

Fækkunin hefur þau áhrif á Akureyri að eftir standa þrjú til fjögur flug fram og til baka á dag í miðri viku og fimm til sex flug um helgar sem þýðir að enn sé hægt að ferðast þá leið með nokkrum sveigjanleika. Svipað á við á Egilsstöðum þar sem enn verða um þrjú flug fram og til baka á dag í miðri viku og fjögur flug um helgar.

Ísafjarðarleiðin lítur hins vegar verr út, samkvæmt skýrslu KPMG. Til að flugleið geti talist standa undir sér í viðskiptalegu sjónarmiði verður hún að bera tvö flug á dag hvora leið. Ef aðeins er flogin ein ferð á dag hverfa möguleikarnir á dagsferðum, þ.e. að farþegi fari að morgni og snúi aftur að kvöldi. Þegar slíkt er ekki í boði fjölgar þeim sem kjósa að aka og flugfarþegum fækkar enn frekar.

Á sama tíma mun kostnaður við ríkisstyrkt flug aukast vegna fækkun farþega.

Kostnaður við sjúkraflug eykst við flutning flugvallarins frá Reykjavík til Keflavíkur, að mati skýrsluhöfunda og öryggi sjúklinga minnkar.

Í skýrslunni kemur fram að gert er ráð fyrir að við flutning megingáttar innanlandsflugs til Keflavíkur muni farþegum fækka um 20% - 40%, en þær tölur byggja á könnunum sem gerðar hafa verið á hug farþega til flutninganna.

Við flutninginn lengist ferðaleið meirihluta farþega sem nemur ferðinni á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins en ferðin tekur u.þ.b. 40 – 50 mínútur með bíl.

Leiðin frá bílastæði inn í flugstöð myndi lengjast að mati KPMG

Verði innanlandsflugi komið fyrir á Keflavíkurflugvelli er fyrirséð að leiðin frá bílastæði / inngangi og að flugstæðum lengist töluvert frá því sem þekkist á Reykjavíkurflugvelli. Þetta lengir ferðina enn frekar þótt erfitt sé að áætla tímalengd í þeim efnum, segir í skýrslunni.

Verði innanlandsflugi komið fyrir á Keflavíkurflugvelli munu farþegar utan af landi standa uppi bíllausir í Keflavík í stað Reykjavíkur sem kemur til með að auka ferðakostnað til muna fyrir þann meirihluta farþega sem á erindi til Reykjavíkur.

Þeir þurfa ýmist að taka leigubíl, bílaleigubíl, almenningssamgöngur eða láta sækja sig með tilheyrandi kostnaði. Verði almenningssamgöngur fyrir valinu bætist við sá tími sem fer í að bíða eftir næstu áætlunarferð.

Sú fækkun farþega sem hér er miðað við tekur ekki tillit til mögulegra hliðaráhrifa. Vera kann að 20 til 40% fækkun farþega, leiði af sér hliðaráhrif sem felast í veri nýtingu og hærra verði á flugmiðum sem aftur dragi úr eftirspurn. Afleiðingar kunna því að vera meiri en hér er gert ráð fyrir, segir ennfremur í skýrslunni sem var kynnt á blaðamannafundi í dag.

70% farþeganna af landsbyggðinni

Svo virðist sem það sé einkum fólk á landsbyggðinni sem nýta innanlandsflugið þar sem um 70% farþega með innanlandsflugi eru búsettir á landsbyggðinni og sækja ýmist, þjónustu, vinnu eða annað á höfuðborgarsvæðið.

Þar af eru 70% farþega á eigin vegum, 20% á vegum fyrirtækja og 10% á vegum hins opinbera. 26% farþega af landsbyggðinni eiga erindi til Reykjavíkur eða Seltjarnarness, vestan Kringlumýrarbrauta, 31% eiga erindi til Reykjavíkur milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar, 19% eiga erindi til Reykjavíkur austan Reykjanesbrautar eða út fyrir borgarmörkin til austurs eða norðurs. 17% eiga erindi sunnan Fossvogs til nágrannsveitafélaga Reykjavíkur; 7% eiga erindi á Suðurnesin eða annað. Skv. þessu eiga 76% farþega af landsbyggðinni erindi innan borgarmarkanna, segir í skýrslu KPMG.

Innanlandsflug myndi dragast saman ef miðstöð innanlandsflugs yrði flutt til …
Innanlandsflug myndi dragast saman ef miðstöð innanlandsflugs yrði flutt til Keflavíkur að mati KPMG. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert