Gallar á kerfinu hafa verið lagfærðir

Gallar sem komið hafa í ljós á fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins hafa verið lagfærðar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Fjársýslu ríkisins. Þar segir ennfremur að það sé alrangt að fjárveiting upp á 160 millj. kr. árið 2001 hafi verið hugsuð til að kaupa, reka og viðhalda kerfinu.

„Vegna umræðu í fjölmiðlum að undanförnu vill Fjársýsla ríkisins (FJS) árétta að það er alrangt að halda því fram að fjárveiting upp á 160 millj. kr. árið 2001 hafi verið hugsuð til að kaupa, reka og viðhalda fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins til dagsins í dag.

Þær 160 millj. kr. sem veittar voru á fjárlögum árið 2001 var ætlað að standa straum af þarfagreiningu og gerð útboðsgagna. Ekki var um að ræða fjárhæð til kaupa á nýju kerfi né reksturs þess því þörfin lá ekki fyrir né hvaða kröfur átti að gera til kerfisins. Upphæðin var eingöngu ætluð til undirbúnings á fyrsta hluta verksins.

Heildarkostnaður við þarfagreininguna, kaup á kerfinu og uppsetningu á því nemur um einum milljarði króna. Rekstur kerfisins á níu ára tímabili nemur um 2,8 milljörðum króna eða rúmum 300 milljónum á ári. Þetta nemur að meðaltali rúmlega einni milljón króna á ári fyrir hverja stofnun ríkisins.

Í Kastljósþætti sjónvarpsins í gærkvöldi, 25. september, var margt aðfinnsluvert:  
 Fullyrt var að í kerfinu sé ekki gerður greinarmunur á bókara og gjaldkera. Það er ekki rétt, kerfið gerir ráð fyrir því að sitt hvor aðili annist þessi verk.
 FJS stemmir af bókhald við banka á hverjum degi. Árið 2008 kom upp tilfelli þar sem reikningur hafði verið tvígreiddur vegna kerfisvillu. Málið var strax rannsakað, kerfinu var þegar breytt og þessi villa kemur ekki upp aftur.
 Því var haldið fram að afstemmingar í kerfinu séu rangar og þar með sjálfur ríkisreikningurinn. Þetta er ekki rétt. Við uppfærslu kerfisins á seinni hluta ársins 2010 kom hinsvegar í ljós galli sem hamlaði afstemmingum tímabundið. Gallinn var leiðréttur og öllum afstemmingum var lokið í júní 2011,“ segir í yfirlýsingu Fjársýslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert