Grikkir hræddir og vilja breytingar

Óeirðalögreglumaður í loga bensínsprengju sem varpað var í Aþenu í …
Óeirðalögreglumaður í loga bensínsprengju sem varpað var í Aþenu í dag. AFP

Upp úr sauð í Aþenu í dag þar sem bensínsprengjur og táragas flaug á víxl milli óeirðalögreglu og mótmælenda. Íslensk kona sem búsett er í Grikklandi fylgdist með mótmælunum og segir suma mótmæla þó ekki sé nema sjálfsvirðingarinnar vegna, en margir hafi misst trúna á að hægt sé að sporna við málum.

„Fólk veit ekki alltaf hverju það er að mótmæla eða hvað það vill í staðinn. Það eru nokkrar mismunandi skoðanir á því, en aðallega er verið að mótmæla niðurskurðinum. Fólk segist ekki geta staðið undir meiri niðurskurði og hann sé ekki sanngjarn,“segir Árdís Kristín Ingvarsdóttir, meistaranemi í mannfræði.

11,5 milljarða niðurskurður framundan

Árdís er í lærlingsnámi í Aþenu og kennir m.a. í háskóla í Aþenu. Hún var stödd í mótmælunum miðjum í dag, en til harðra átaka kom og voru tugir manna handteknir. Þetta voru fyrstu mótmælin sem grísk stéttafélög efna til síðan ný samsteypustjórn komst til vanda í júní eftir kosningar.

Enn einn niðurskurðurinn, upp á 11,5 milljarða evra, hefur verið boðaður til að mæta kröfum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en almenningur í Grikklandi spyrnir við fótum. Atvinnuleysi í landinu hefur aldrei verið meira og þriðjungur landsmanna lifir undir fátækramörkum, að sögn BBC. 

Lögreglan beitti hörku

Árdís segir að mjög blandaður og fjölmennur hópur fólks hafi látið í sér heyra í miðborg Aþenu í dag. „Þarna var fullt af því sem ég myndi telja venjulegt fólk, en auðvitað var líka fólk sem sat heima því það er hætt að trúa á að það geti kallað fram breytingar.“ Árdís segist líka þekkja til ungs kennara sem vildi mótmæla en treysti sér ekki til þess þar sem hún er ófrísk og óttaðist að táragas lögreglu gæti haft skaðleg áhrif á fóstrið.

Lögreglan var ansi hörð í horn að taka að sögn Árdísar. „Þegar gangan var að koma nær Syntagma [aðaltorginu þar sem þingið situr] sagði einn vinur minn að hann væri farinn að finna í hjarta sínu að eitthvað væri að, því lögreglan sæist hvergi og engin lykt af táragasi fyndist í loftinu,“ segir Árdís sem var þá sjálf farin að finna bensínlykt. Hún komst að því síðar að bensínsprengjum var varpað, en segir tvennum sögum fara af því hvort mótmælendur eða lögreglan hafi beitt þeim. „Það hefur gerst hér áður að lögreglan hefur dulbúið sig sem mótmælendur og byrjað ofbeldið.“

„Eina hugsunin var að detta ekki“

Árdís segir að lögreglan hafi grýtt steinum og táragasbrúsum inn í mótmælendahópinn. Sumir hafi dregið sig út úr göngunni áður en að þinghúsinu kom því þeir treystu sér ekki lengra. „Þegar við vorum komin framhjá mestu átökunum var ég farin að tárast svo mikið að ég sá ekkert og eina hugsunin var að detta ekki, því þá gæti ég átt á hættu að vera handtekin eða barin af lögreglu,“ segir Árdís. Nokkur troðningur hafi verið en fólk þó haldið ró sinni. Hún segir svo skjóta skökku við að þegar allt var um garð gengið hafi hún séð lögreglumenn blikkandi stelpur sem þeir höfðu áður verið að sprauta táragasi yfir.

Þótt mótmælin í dag séu um garð gengin segir Árdís að mikil og almenn spenna sé í þjóðfélaginu. Margir hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum eftir kosningarnar og finnist þær ekki hafa fært neinar raunverulegar breytingar. Þá sé spillingin enn víðtæk og niðurskurðurinn litist af henni. 

„Fólk vill breytingar, en virðist á sama tíma vera hrætt við þær,“ segir Árdís. „Ég hef heyrt suma segja að stjórnmálamennirnir muni nú redda þeim og niðurskurðurinn komi ekki til með að bitna á þeim, en nú lítur æ meira út fyrir að niðurskurðinn bitni á fleirum. Þá ekki síst þeim sem hafa ekkert milli handanna.“

Mótmælendur söfnuðust saman við þinghúsið í Aþenu þegar sólarhrings allsherjarverkfall …
Mótmælendur söfnuðust saman við þinghúsið í Aþenu þegar sólarhrings allsherjarverkfall hófst í morgun. AFP
Mótmælandi með skilti af Angelu Merkel kanslara Þýskalands.
Mótmælandi með skilti af Angelu Merkel kanslara Þýskalands. AFP
Margir huldu andlit sín í mótmælunum í dag, til að …
Margir huldu andlit sín í mótmælunum í dag, til að verjast táragasinu. Ljósmynd/Árdís Kristín Ingvarsdóttir
Mótmælendur í Aþenu.
Mótmælendur í Aþenu. Ljósmynd/Árdís Kristín Ingvarsdóttir
Mótmælendur ganga að þinghúsinu.
Mótmælendur ganga að þinghúsinu. Ljósmynd/Árdís Kristín Ingvarsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert