Jóhanna fundaði með Miliband

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra átti í dag fund með  David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra og umhverfisráðherra Bretlands, sem heldur fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag, segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

David Miliband var utanríkisráðherra Bretlands frá 2007 til 2010 og var fyrst kjörinn á þing fyrir breska Verkamannaflokkinn árið 2001.  Hann þekkir vel til aðstæðna sem hér sköpuðust eftir efnahagshrunið haustið 2008.  

Forsætisráðherra og Miliband ræddu um efnahagsmál, Evrópumál og stöðu endurreisnarinnar hér á landi.  Hrósaði Miliband íslenskum stjórnvöldum sérstaklega fyrir góðan árangur við endurreisn efnahagslífsins eftir bankahrunið 2008 og minnkandi atvinnuleysi á síðustu árum, að því er fram kemur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert