MS-lyfið Sativex hlaut nýlega markaðsleyfi frá Lyfjastofnun en lyfið inniheldur virku efnin Delta-9-tetrahydrocannabinoll (THC BDS), sem er jafnframt virka vímuefnið í kannabisefnum, og Cannabidiol Botanical (CBD BDS) sem einnig má finna í kannabisplöntum.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur m.a. fram, að lyfið er eftirritunarskylt, sérfræðingsmerkt og lyfseðilsskylt en þar að auki er ávísun lyfsins takmörkuð við sérfræðinga í taugasjúkdómum.
Ísland mun vera fjórða norræna ríkið til þess að heimila sölu eða notkun á lyfinu en samkvæmt norska blaðinu Verdens Gang hafa Noregur, Finnland og Svíþjóð áður heimilað notkun þess. Leyfishafi lyfsins er breska lyfjafyrirtækið GW Pharma Ltd.