Krefjast 19 milljarða frá Lífeyrissjóði verslunarmanna

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er í Húsi verslunarinnar.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er í Húsi verslunarinnar.

Slitastjórn Glitnis hefur stefnt Lífeyrissjóði verslunarmanna og krefst þess að sjóðurinn verði dæmdur til að greiða 19 milljarða króna vegna óuppgerðra gjaldeyrissamninga. Þetta kom fram í kvöldfréttum Rúv.

Lífeyrissjóðirnir gerðu fyrir hrun gjaldmiðlavarnarsamninga til þess að draga úr sveiflum á erlendum eignum sjóðanna. Þegar bankarnir féllu voru þessir samningar 70 milljarða króna í mínus fyrir lífeyrissjóðina. Lífeyrissjóðirnir færðu verulega fjármuni á afskriftareikning vegna þessara samninga, en tóku jafnframt fram í ársreikningum sínum að ekki væri búið að leysa úr ágreiningi í málinu.

Sá ágreiningur hefur enn ekki verið leystur, þrátt fyrir tilraunir til samkomulags undanfarin þrjú ár. Helgi Magnússon formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna sagði í samtali við mbl.is í mars að þolinmæði stjórnarinnar væri á þrotum og að hún íhugaði að sækja skaðabætur til stjórnenda bankanna. „Við teljum að bankarnir hafi farið fram með óforsvaranlegum hætti [...] Við bendum á það sem er útbreidd skoðun, að það varð forsendubrestur og markaðsmisnotkun,“ sagði Helgi þá meðal annars. 

Nú hefur slitastjórn Glitnis orðið fyrri til og stefnu stjórn lífeyrissjóðsins. Samkvæmt fréttum Rúv segir slitastjórnin í stefnunni að lífeyrissjóðnum hafi verið fulljóst að áhætta fylgdi svona samningum. Ekkert dómafordæmi er til í ágreiningsmáli af þessu tagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert