Landsbyggðin verður afskekktari

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri.

Starfsskilyrði háskólastofnana og annarra menntastofnanna á landsbyggðinni verða erfiðari svo og uppbygging á metnaðarfullu skólastarfi á landsbyggðinni, samkvæmt skýrslu sem KPMG hefur unnið varðandi flutnings á innanlandsflugi frá Reykjavík til Keflavíkur.

Eins verður menningarlífið á landsbyggðinni fábrotnaðar því erfiðara verður að standa undir metnaðarfullu og skapandi menningarlífi á landsbyggðinni án góðra samgangna, segir í skýrslu KPMG.

Atvinnulífið yrði einhæfara á landsbyggðinni

Skýrsluhöfundar telja að atvinnulífið á landsbyggðinni verður einhæfara þar sem stór fyrirtæki með höfuðstöðvar úti á landi treysta mikið á flug. Möguleikar manna til að búa fjarri höfuðborgarsvæðinu en sækja þangað vinnu minnka.

„Landsbyggðin í heild sinni verður afskekktari þegar innanlandsflug dregst saman. Gott aðgengi að menningu, menntun og þjónustu í víðasta skilningi er einn af þeim meginþáttum sem áhrif hafa á búsetuval fólks,“ segir enn fremur í skýrslunni sem KPMG vann fyrir sex sveitarfélög á landsbyggðinni.

Með greiðum flugsamgöngum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins er rekstrargrundvöllur fyrirtækja úti á landi bættur og þeim gert auðveldara að sinna starfsemi sinni. Slíkt er atvinnuskapandi sem aftur leiðir til aukinnar búsetu á landsbyggðinni eða a.m.k. minni fólksfækkunar.

Myndi þýða hærri rekstrarkostnað

Ef innanlandsflug flyst til Keflavíkur er rekstrarkostnaður fyrirtækja á landsbyggðinni aukinn ásamt því sem fyrirtækin missa starfsmenn lengur frá vinnu sökum aukins ferðatíma, segja skýrsluhöfundar.

Með minni flugtíðni aukast líkur á að flugtími henti ekki til fundarhalds eða annarra þeirra erinda sem starfsmenn fyrirtækjanna sækja og möguleikar á dagsferðum minnka. Ef fyrirtæki þurfa orðið að borga gistingu á höfuðborgarsvæðinu eykst kostnaðurinn við ferðina enn frekar og tíminn sem starfsmaðurinn er frá lengist.

Ef aðgengi fyrirtækja á landsbyggðinni að höfuðborgarsvæðinu versnar mikið getur það leitt til fækkunar fyrirtækja úti á landi eða tilfærslu höfuðstöðva frá landsbyggðinni. Við það færast störf frá landsbyggðinni, í sumum tilfellum hátekjustörf, sem kemur niður á útsvarstekjum sveitafélaga.

Telja flutninginn ekki hafa hagræði í för fyrir sér fyrir útflutningsfyrirtæki

„Nokkuð hefur verið rætt um að hagræði gæti falist í flutningunum fyrir þau fyrirtæki á landsbyggðinni sem eiga oft erindi erlendis, þ.e. að betra sé fyrir þau að fljúga beint til Keflavíkur. Í þessu samhengi hafa sjávarútvegsfyrirtæki iðulega verið nefnd. Það var álit viðmælenda KPMG að í raun myndi ekkert hagræði felast í slíku. Ef svo ætti að vera þyrfti að samræma flugáætlun í innanlandsflugi og til áfangastaða starfsmanna fyrirtækjanna erlendis.

Í dag er ýmist verið að fljúga út eða koma heim á tímum sem falla utan hefðbundinnar innanlandsáætlunar svo allar líkur eru á að starfsmenn þurfi að gista eina nótt á öðrum hvorum leggnum. Jafnvel þótt slíkt sé ekki tilfellið þá eiga starfsmenn fyrirtækjanna iðulega erindi á staði þar sem tengifluga er þörf og þá væri aðeins verið að færa þörfina á gistinótt frá Íslandi og eitthvert út í heim á meðan beðið er eftir tengiflugi. Það litla hagræði, ef nokkuð, sem fælist í þessu myndi ávalt bíða lægri hlut gagnvart því óhagræði sem fylgir verri samgöngum til höfuðborgarsvæðisins,“ segir enn fremur í skýrslu KPMG.

Háskólar og aðrar menntastofnanir á landsbyggðinni njóta góðs af greiðum flugsamgöngum sem bæta aðgengi þeirra að höfuðborgarsvæðinu og því menntasamfélagi sem þar hefur verið byggt upp. Kennarar á landsbyggðinni eru, starfs síns vegna, gjarnan á ferðinni og sækja námskeið, ráðstefnur, fyrirlestra og aðra þjónustu til höfuðborgarinnar. Þetta á sérstaklega við um prófessora og aðra kennara á háskólastigi, segir í skýrslu KPMG.

Rannsóknaraðstaða fyrir allt landið í Reykjavík

Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið byggð upp ýmiskonar sérhæfð aðstaða, s.s. rannsóknaraðstaða, sem ætlað er að þjóna öllu landinu. Þetta hefur verið gert á svipuðum forsendum og hjá heilbrigðisþjónustunni, þ.e. af hagkvæmnisástæðum. Núverandi fyrirkomulag gengur upp vegna greiðra samgangna og þá aðallega fyrir tilstilli flugs.

Komi innanlandsflug til með að færast til Keflavíkur mun menntastofnunum reynast erfiðara að sækja fagfólk til höfuðborgarinnar og þá sérstaklega í styttri ferðir, s.s. gestakennslu, á ráðstefnur eða í staka fyrirlestra.

Menningin háð flugsamgöngum

Í dag eru menningarmál á landsbyggðinni, sérstaklega þau sem rekin eru í viðskiptalegum tilgangi, afskaplega háð góðum flugsamgöngum. Menningarstofnanir á landsbyggðinni eru í miklu samstarfi við sambærilegar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu og nýta bæði þjónustu þeirra og mannafla. Greiðar flugsamgöngur gera menningarsamfélaginu á landsbyggðinni kleyft að framkvæma meira en ella.

Menningarlíf á landsbyggðinni nýtur líka góðs af því að eiga auðvelt með að ferðast til höfuðborgarsvæðisins. Tónlistarmenn, leikarar, rithöfundar og annað listafólk njóta góðs af því að geta sótt innblástur, þjálfun og tækifæri til höfuðborgarsvæðisins. Menningarsamfélag sem ekki er í góðum tengslum við sér stærra samfélag verður lítið og einangrað.

Með greiðum flugsamgöngum færist landsbyggðin nær höfuðborgarsvæðinu sem gerir það auðveldara fyrir íbúa þess að sækja menningarviðburði út á land.

Það er hluti af lífsgæðum um land allt að geta sótt menningarviðburði, sýningar og fleira þess háttar með tiltölulega einföldum hætti. Í því sambandi er gott að hafa í huga að stofnanir eins og Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands reka sína starfsemi í Reykjavík en sinna öllum landsmönnum, segir í skýrslu KPMG um áhrif flutnings miðstöðvar innanlandsflugs til Keflavíkur frá Reykjavík.

Flugferðum myndi fækka um 40%

Mínútuspursmál hvort sjúklingur lifir af

85%  myndu fljúga sjaldnar

Dýrin í Hálsaskógi í Þjóðleikhúsinu
Dýrin í Hálsaskógi í Þjóðleikhúsinu mbl.is
mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert