Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness samþykkti í kvöld að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort að verðtrygging hér á landi standist lög. Félagið lét fyrr á árinu vinna lögfræðilegt álit á því hvort verðtrygging hér á landi stæðist íslensk lög og var niðurstaða þess álits sú að verulegur vafi léki á slíku.
Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að það muni kosta þennan málarekstur og séu nú þegar hafnar viðræður við lögfræðistofu um að reka þetta mál fyrir dómstólum. „Það liggur nú þegar fyrir að óskað verður eftir flýtimeðferð hjá dómstólum vegna þessa máls enda eru miklir almannahagsmunir í húfi hvað þetta varðar. Einnig er mjög mikilvægt að dómstólar skeri fljótt og vel úr um það hvort að verðtryggingin standist lög eður ei í ljósi þeirra staðreynda að margir aðilar sem hafa tjáð sig opinberlega draga það verulega í efa að verðtrygging á neytendalánum standist lög.“
Í fréttatilkynningunni segir að það sé engum vafa undirorpið að verðtryggingin hafi leikið íslensk heimili grátt á liðnum árum og sem dæmi þá hafi verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um uppundir 400 milljarða frá 1. janúar 2008 til dagsins í dag. „Og bara í dag var tilkynnt að neysluvísitalan hefði hækkað um 0,76% á milli mánaða sem þýðir að verðtryggðar húsnæðisskuldir landsmanna hækkuðu í síðasta mánuði um 11 milljarða króna. Það er sama upphæð og er áætlað að framkvæmdirnar við Vaðlaheiðagöng kosti. Það er einnig rétt að upplýsa að meðalverðtryggð skuld íslenskra heimila í dag er í kringum 22 milljónir króna, sem þýðir að slík lán hafi hækkað um 167 þúsund krónur á milli mánaða. Það sér hvert einasta mannsbarn hverslags miskunnarlaust óréttlæti það er að varpa allri ábyrgð verðtryggingarinnar á skuldsett heimili á meðan lánveitendur eru tryggðir í bak og fyrir.“
Að mati Verkalýðsfélags Akraness er orðið ljóst að íslensk stjórnvöld ætla sér ekki að leiðrétta þá stökkbreyttu hækkun sem orðið hefur á verðtryggðum húsnæðislánum frá hruni heldur hafi stjórnvöld tekið ákvörðun um að slá skjaldborg um fjármálastofnanir, erlenda vogunarsjóði og aðra aðila sem fjármagnið eiga í þessu landi.