„Við finnum nú þegar fyrir því að afbókanir dynja yfir. Við erum að upplifa það að ýmsar ferðaskrifstofur setja Ísland á ís á næsta ári og við dettum út úr auglýsingum og bæklingum,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Fosshótela.
Davíð er spurður um afleiðingar áformaðrar hækkunar virðisaukaskatts á gistingu á næsta ári. Hann segir að hækkun skattsins muni leiða til stórfelldrar fækkunar ferðamanna, og vitnar þar til skýrslu KPMG. Segir hann að sjálfsagt muni ferðaskrifstofurnar hafa áfram upplýsingar um Íslandsferðir, ef einhverjir áhugasamir gestir komi.
Davíð segir að óvissan sé mikil. Niðurstaðan í virðisaukaskattsmálinu verði ekki endanlega ljós fyrr en við afgreiðslu fjárlaga í desember. Hann telur óvarlegt að reikna með öðru en að virðisaukaskatturinn verði hækkaður enda sé gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi. „Við munum hækka allt verð sem leiða mun til fækkunar ferðamanna,“ segir Davíð.