Flokkurinn þarf að ræða framtíðina

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Enginn stjórnmálamaður á Íslandi á jafnglæsilegan feril og Jóhanna Sigurðardóttir, að mati Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Sigríður Ingibjörg segir það ekki hafa vakað sérstaklega fyrir sér að fara í formannskjör en flokkurinn þurfi nú að ræða hvers konar forystu hann vill.

„Jóhanna sigurðardóttir er sá stjórnmálamaður sem hefur notið hvað mests trausts í íslenskum stjórnmálum og ég held að það hafi verið gríðarlegur ávinningur fyrir okkur í gegnum þessi erfiðu ár að vera með hana sem forsætisráðherra,“ segir Sigríður Ingibjörg. 

„Þótt að hún sé auðvitað umdeild eins og gefur að skilja á þessum tímum þá hefur enginn grunað hana um að vera að hygla sérhagsmunum. Fólk treystir því að hún sé að vinna að hag almennings á Íslandi og ég held að það sé vanmetið hvað það er gríðarlega mikils virði að hafa haft slíkan forsætisráðherra.“

Sjálf hefur Sigríður í hyggju að bjóða sig fram í 1.-2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Aðspurð hvort hún stefni á formannssætið um leið segir hún það ekki hafa vakað sérstaklega fyrir sér. 

„En ég hef líka sagt að telji fólk mig eiga að vera í forystuhlutverki þá muni ég að sjálfsögðu íhuga það. Nú þurfa flokksmenn í Samfylkingunni að ræða saman og velta fyrir sér hvers konar forystu flokkurinn þarf til framtíðar. Það eru mörg verkefni framundan og það er mikið starf að vera formaður. Hver sá sem ætlar sér að taka það að sér þarf að íhuga það mjög alvarlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert