Framkvæmdastjóri íhugi uppsögn

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. Bragi —r J—sefsson

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fer fram á að framkvæmdastjóri flokksins íhugi alvarlega uppsögn sína. Þetta kemur fram í ítarlegri fréttatilkynningu frá Höskuldi. Í tilkynningunni fer Höskuldur yfir fréttaflutning af framboðsmálum sínum og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins í Norðausturkjördæmi, og segir m.a.: „Þrátt fyrir augljósar rangfærslur og tilraunir til að breyta eftir á raunverulegri atburðarás ákvað framkvæmdastjóri flokksins, Hrólfur Ölvisson, að koma fram í fjölmiðlum og saka mig um lygar. Nú var fullyrt að hann en ekki formaður flokksins hefði tilkynnt mér að kvöldi fimmtudagsins 20. september sl. um fyrirætlanir Sigmundar Davíðs. Þetta er fullyrt þrátt fyrir að fyrir liggi sms frá föstudeginum 21. september sl. frá formanni flokksins um að hann vilji ræða við mig um mikilvægt mál í trúnaði.“

Fréttatilkynning Höskuldar í heild:

Í fréttatilkynningu sem ég var nauðbeygður að senda frá mér sl. mánudag gerði ég mér far um að leiðrétta rangan fréttaflutning af atburðum í Framsóknarflokknum um síðustu helgi. Ég sé mig, því miður, enn knúinn til að leiðrétta rangfærslur. Ég fer einnig fram á að framkvæmdastjóri flokksins íhugi alvarlega uppsögn sína. Ég ítreka að ég harma þá stöðu sem komin er upp í Framsóknarflokknum með ákvörðun Sigmundar Davíðs.

Þegar ég heyrði kvöldfréttir, bæði á Stöð 2 og í Ríkissjónvarpinu sl. sunnudag, varð mér ljóst að búið var að hanna atburðarás sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Þannig kom eftirfarandi fram í fréttatíma Stöðvar 2:

„Þeir Sigmundur Davíð og Höskuldur funduðu í gær á Sauðárkróki ásamt öðrum trúnaðarmönnum flokksins í Norðausturkjördæmi til að finna lausn á þeirri stöðu sem upp er komin samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2. Þetta var eftir haustfund Framsóknar á Króknum þar sem allir þingmenn flokksins voru saman komnir. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu ræddu þeir Sigmundur Davíð og Höskuldur einnig saman í dag án niðurstöðu.“

Heimildirnar sem fréttastofan studdist við eru rangar. Enginn slíkur fundur átti sér stað, hvorki með Sigmundi Davíð né öðrum trúnaðarmönnum flokksins. Eins og áður hefur komið fram fékk ég upplýsingar um framboð Sigmundar Davíðs í símtali um hádegisbilið, strax eftir fundinn. Þá hafði fréttatilkynning þess efnis birst í fjölmiðlum. Ég fór rakleiðis heim til Akureyrar enda ljóst að dagurinn yrði annasamur og ágangur fjölmiðla mikill.

Fyrir lok fréttatímans kom ég eftirfarandi athugasemdum að:

„Í tengslum við frétt okkar hér áðan um Framsóknarflokkinn þá vill Höskuldur Þór Þórhallsson koma því á framfæri að það sé rangt að hann og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi rætt sérstaklega saman um þá ákvörðun Sigmundar Davíðs að gefa kost á sér í fyrsta sæti í Norðausturkjördæmi. Höskuldur segir það ekki hafa verið borið undir sig að víkja fyrir Sigmundi og segist ætla að halda sínu striki.“

Ég ítreka þakkir mínar til fréttastofu Stöðvar 2 að leiðrétta rangfærslurnar. Ég met mikils að fréttastofan skyldi strax hafa samband við mig og biðjast afsökunar á mistökunum. Heimildirnar hefðu einfaldlega verið rangar.

Það er alveg ljóst að fréttin sem flutt var í fréttatíma RÚV sama kvöld var af sömu rót runnin. Þar kom eftirfarandi fram:

„Þeir framsóknarmenn sem fréttastofa ræddi við í dag sögðu að innan flokksins hafði verið rætt í töluverðan tíma að Sigmundur Davíð hygðist bjóða sig fram í fyrsta sæti í kjördæminu.“

Síðustu daga hef ég í fjölmörgum samtölum mínum við fólk í Norðausturkjördæmi spurt hvort þessi fullyrðing RÚV gæti átt við rök að styðjast. Í stuttu máli er ekkert sem bendir til þess. Hvorki formenn Framsóknarfélaga á Norður- og Austurlandi, sveitarstjórnarmenn eða almennir félagsmenn sem ég hef náð sambandi við höfðu nokkra vitneskju um slíkt. Ótrúlegt væri að fjölmiðlar hefðu ekki fengið sögusagnir í hendur og þá fjallað um þær, hefðu þær verið á kreiki. Svo virðist sem einungis fámennur hópur hafi haft vitneskju um fyrirætlanir Sigmundar Davíðs.

Þrátt fyrir augljósar rangfærslur og tilraunir til að breyta eftir á raunverulegri atburðarás  ákvað framkvæmdastjóri flokksins, Hrólfur Ölvisson, að koma fram í fjölmiðlum og saka mig um lygar. Nú var fullyrt að hann en ekki formaður flokksins hefði tilkynnt mér að kvöldi fimmtudagsins 20. september sl. um fyrirætlanir Sigmundar Davíðs. Þetta er fullyrt þrátt fyrir að fyrir liggi sms frá föstudeginum 21. september sl. frá formanni flokksins um að hann vilji ræða við mig um mikilvægt mál í trúnaði og að bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri hafi staðfest í fjölmiðlum að ákvörðun mín um framboð hafi verið kynnt á félagsfundi á Akureyri 15. september sl.

Það er fáheyrt að starfsmaður flokksins gangi fram með slíkum hætti. Ég krefst því að Hrólfur Ölvisson íhugi alvarlega að láta af störfum fyrir Framsóknarflokkinn. Það skiptir öllu máli að félagsmenn geti treyst því að skrifstofa Framsóknarflokksins starfi af heilindum fyrir alla flokksmenn, ekki síst í væntanlegum prófkjörum fyrir komandi kosningar.

Ég vil svo láta þess getið að fyrir formannsslaginn sem átti sér stað árið 2009 sendum við Sigmundur Davíð sameiginlega beiðni þess efnis á skrifstofu Framsóknarflokksins að tiltekinn starfsmaður myndi ekki starfa á flokksskrifstofunni þar sem draga mætti hlutleysi hans í efa. Að sjálfsögðu var orðið við þeirri beiðni.

Ég harma stöðuna sem upp er komin innan Framsóknarflokksins. Ég harma einnig að ófriðarbálið sem geisað hefur hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík undanfarin ár hafi nú verið tendrað í Norðausturkjördæmi með ákvörðun Sigmundar Davíðs.

Ég mun ótrauður halda mínu striki og er afar þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem ég finn fyrir í Norðausturkjördæmi. Leiðtogi flokksins í kjördæminu þarf að hafa hugrekki til að leiða flokkinn í þeirri kosningabaráttu sem framundan er og kjark til að ræða mikilvæg málefni við samstarfsmenn sína. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert