Nemendur úr Landakotsskóla afhentu í dag Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra undirskriftalista þar sem skorað er á yfirvöld og aðra hlutaðeigandi að tryggja íslenskum börnum þá tannvernd sem þeim ber samkvæmt ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.Tæplega sex þúsund manns skrifuðu undir áskorunina.
Barnaheill - Save the Children á Íslandi stóðu fyrir málþingi í mars um þá óheillaþróun sem átt hefur sér stað í tannheilsu íslenskra barna. Þar kom meðal annars fram að á aðeins 16 ára tímabili hefur Ísland farið úr því að vera í hópi tíu efstu þjóða meðal OECD-landa hvað tannheilsu 12 ára barna varðar, í það að vera í sjötta neðsta sæti.
Tannheilsa barna virðist vera sá hlekkur sem er veikastur þegar kemur að heilbrigðiskerfinu og jafnvel má segja að hann sé brostinn eins og staðan er í dag, segir í tilkynningu frá Barnaheillum.