Jóhanna ætlar að hætta

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í ræðustól á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í ræðustól á Alþingi. Ómar Óskarsson

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hefur birt yfirlýsingu um að hún ætli að hætta sem formaður flokksins eftir þetta kjörtímabil og um leið láta af þátttöku í stjórnmálum.

Í bréfi sem Jóhanna í bréfi stílaði til flokksmanna sinna og birt er á heimasíðu Samfylkingarinnar segir að hún hafi verið valin til forystu á óvissutímum, bæði sem formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra. „Mér var falin gífurleg ábyrgð og sýnt ómælt traust. Ekki sóttist ég þó sjálf eftir þessum vandasömu verkefnum og í sannleika sagt hafði ég áform um að hætta stjórnmálaþátttöku að loknu því kjörtímabili sem hófst vorið 2007. En í ljósi eindreginna tilmæla flokksmanna og þáverandi forystu flokksins, og andspænis þeim krefjandi verkefnum sem við blöstu í íslensku samfélagi, var ómögulegt annað en að taka slaginn. Og því sé ég svo sannarlega ekki eftir.“

„Pólitík er langhlaup og þar veltur á miklu að hafa úthald og þrautseigju alla leið í mark ... og helst að spretta enn hraðar úr spori á lokametrunum,“ segir Jóhanna í bréfinu. „Lokaspretturinn er hafinn, bæði minn pólitíski endasprettur og endasprettur fyrstu meirihlutaríkisstjórnarinnar undir forystu okkar jafnaðarmanna.    Á mánuðunum fram að landsfundi og síðan fram að kosningum mun ég að sjálfsögðu gera mitt ýtrasta, í þeim störfum sem þið hafið falið mér, til að ná fram baráttumálum okkar jafnaðarmanna og til þess að tryggja að Samfylkingin verði áfram forystuafl í íslenskum stjórnmálum.“

Jóhanna hefur verið alþingismaður frá árinu 1978 og forsætisráðherra frá 1. febrúar 2009. Hún verður sjötug 4. október nk.

 Yfirlýsing Jóhönnu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert