„Þetta eru auðvitað töluverð tíðindi, þótt þau komi ekki á óvart,“ segir Dagur B. Eggertsson varaformaður Samfylkingarinnar um tilkynningu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ætlar að hætta í stjórnmálum eftir kjörtímabilið.
Einn merkasti forsætisráðherra Íslandssögunnar
Dagur telur Jóhönnu geta skilið sátt við stjórnmálaferilinn. „Jóhanna hefur sjálf sagt að hún var á leiðinni út úr stjórnmálum þegar fólkið í flokknum og í raun alls staðar í samfélaginu tók höndum saman um að lyfta henni til forystu. Og ég held að það hafi verið alveg sérstök gæfa satt best að segja. Ég bið fólk bara að hugsa þá hugsun að annaðhvort stjórnmálamaður með minni reynslu, eða einhver með beinar tengingar inn í þá hrundu banka og fyrirtæki sem áttu þátt í hruninu, hafi átt að leiða okkur í gegnum þessi mjög svo erfiðu verkefni, sem Jóhanna hefur leitt með miklum sóma.“
Hann segir miklu máli hafa skipt í uppbyggingunni eftir hrun að í embætti forsætisráðherra valdist forystumaður sem naut trausts. „Eða að minnsta kosti virðingar fyrir heiðarleika, jafnvel þótt fólk geti verið ósammála um einstakar leiðir. Ég held að Jóhanna sé nú þegar búin að tryggja sér sess í Íslandssögunni sem einn merkasti forsætisráðherra sögunnar.“
Ekki á framboðsbuxum sjálfur
Varðandi hvað þessi tímamót þýði fyrir Samfylkinguna segir Dagur að í ráðherratíð Jóhönnu hafi flokkurinn líka farið í gegnum mikið umbótaferli og gert upp sín mál. „Þannig að ég held að þótt fylgið hafi dalað um tíma standi flokkurinn sterkari á eftir, sem sést kannski á því að við fáum að leysa hversdagsleg verkefni eins og hver tekur við formennsku, í stað þess að setja niður djúpstæðar deilur fylkinga sem talast ekki við, eins og maður sér í sumum öðrum flokkum.“
Aðspurður hvort hann telji að komandi formannsslagur verði harður segist Dagur vona að hann verði fyrst og fremst uppbyggilegur og skemmtilegur sama hverjir gefi kost á sér.
Ert þú sjálfur búinn að gera upp hug þinn í þeim málum?
„Ég hef ekkert gefið út á það, og mér finnst þetta heldur ekki dagurinn til þess. En ég hef ekki verið á neinum framboðsbuxum.“