Kona, sem synti 70-100 metra í land eftir að bátur hennar steytti á skeri á Þingvallavatni í gærkvöldi, meiddist illa á andliti er hún kastaðist til í bátnum. Hún segir aðstæður hafa verið erfiðar, myrkur var skollið á og vatnið var ískalt.
Hún er nú á sjúkrahúsi og ekki liggur fyrir hvort hún brotnaði í andliti. Karlmaður, sem með henni var, er rifbeinsbrotinn.
„Þetta hefði eiginlega ekki átt að gerast. Ég var rétt ókomin í land, ég stóð uppi og var með aðra höndina á stýrinu, hina á bensíngjöfinni. Svo lendi ég á skeri. Þá ýtti ég óvart bensíngjöfinni í botn og þá fór báturinn lengst upp á sker. Þetta var algjört óhapp, eins mikið og það getur verið,“ segir konan sem ekki vill láta nafns síns getið.
Hún segist hafa verið vel útbúin, dýptarmælir var í bátnum og hún var klædd í þurrbúning. Hvorugt þeirra var með síma.
Slysið varð um áttaleytið í gærkvöldi, en björgunarsveitir voru kallaðar út skömmu eftir klukkan tíu. Fólkið varði nokkrum tíma við að reyna að losa bátinn, en þegar það tókst ekki varð ljóst að annað þeirra yrði að synda sem fyrst í land, en nokkuð rökkvað var orðið.
„Við vorum að reyna að átta okkur á aðstæðum og hvernig við gætum komið okkur út úr þessu. Þar sem ég var í þurrbúningi gat ég gengið í kringum bátinn og skoðað hvernig hann var fastur.“
Hún segir að nokkurn tíma hafi tekið að synda í land.
„Það var komið kolniðamyrkur og vatnið var skelfilega kalt. Sem betur fór var ég í búningnum og ég var líka með tvö björgunarvesti. Ég klæddi mig í annað þeirra og synti á hinu í land til að komast hjá því að bleyta á mér höfuðið.“
„Það er svo mikið af gjótum á þessu svæði og ég vildi ekki fara að þvælast um svæði sem ég þekkti ekki, þannig að ég fór í bústaðinn minn, þótt það tæki lengri tíma.“
Þegar konan kom í bústaðinn sinn hringdi hún eftir aðstoð og komu björgunarsveitirnar Tintron í Grafningi og Ingunn frá Laugarvatni til aðstoðar. Þær voru komnar að manninum á skerinu skömmu eftir klukkan 23 og fluttu hann í land.