„Fór aftur á Hvolsvöll í dag eftir hringveginum og þakka Drottni og rallakstrinum í gamla daga fyrir að vera lifandi,“ skrifar fjölmiðlamaðurinn Ómar Ragnarsson á facebooksíðu sína.
Þar skrifar Ómar að í gær hafi hann ekið á Hvolsvöll eftir hringveginum. Þar ók stór jeppi, sem stóð kyrr í útskoti við vegamótin að Gunnarsholti, skyndilega þvert yfir veginn.
„Það stefndi í harðan árekstur milli mín á minnsta bíl landsins og þessa stóra jeppa. Ég tognaði í handlegg við að svipta bílnum undan jeppanum og smjúga milli hans og skiltis sem stendur inni á afleggjaranum fimm metrum fyrir norðan hringveginn sjálfan. Þar flaug ég tíu metra út af afleggjaranum en komst heilu og höldnu upp á veginn að nýju án þess að tefjast,“ skrifar Ómar.
„Þarna komu gamlir refleksar úr rallinu sér vel, en lífgjöfin var Drottins. Einn metri til eða frá skildi á milli lífgjafar og stórslyss.“